sunnudagur, apríl 29, 2007

Inland Empire fokkings deyðu!

David Lynch er núna hlægjandi einhverstaðar yfir hugsuninni að einhver sé virkilega að fara á þessa motherfökking mynd, Inland Empire. Þetta er þriggja klukkutíma steypa af random senum sem er klippt saman einhvern veginn, eftir sýningu það eina sem þú vilt gera að taka eina almennilega Magnum byssu og sprengja útúr þér heilahvelið. Þessi mynd nánast eyðilagði kvöldið mitt í gær, augun á mér voru rotnuð og ég var með dúndrandi andskotans höfuðverk en sem betur fer þá var ég með nóg af meðalli til þess að lækna ástandið mitt. Þá meina ég áfengi, og af því drakk ég sæmilega mikið, nóg til þess að gleyma þessari djöfullegri reynslu að sjá Inland Empire. Ég get ekki einu sinni skrifað um þessa mynd, það er ekkert að skrifa um, David Lynch getur verið mjög fínn en núna var hann bara að segja "fuck you" við allan heiminn. Ef þú ætlar á Inland Empire, taktu með þér Magnum byssu eða nóg af áfengi.

Jæja, allavega fékk ég að sjá myndina í boði græna ljóssins, sem betur andskotans fer...

En drykkjan eftirá var merkileg, þó mjög dæmigerð í uppbyggingu. Byrjaði allt á einum bjór, sem ég opnaði, stillti upp við munninn á mér og hellti honum niður kokið á mér og þar með fór áfengisefnið inn í blóðrásina mína og fökkaði upp dómgreindinni minni. Eftir fyrsta bjórinn fylgdi annar, svo annar, svo annar, svo annar, svo blandaði ég mér Diesel (50% bjór og 50% coca cola) og fékk nokkur þannig glös, síðan fékk ég mér tvö vodka glös og síðan gekk ég í miðbæinn með félögum.

Á Prikinu var síðan hvítvíns drykkja og eftir það láu leiðir okkar einhvern veginn á Q-Bar þar sem einn félagi minn er víst háður þeim stað, á heilbrigðum eða óheilbrigðum hátt það veit ég ekki. Q-Bar lofaði ekki góðu til þess að byrja með, við innganginn ákvað einhver stelpa að sparka í mig nokkrum sinnum, annar félagi minn útskýrði seinna fyrir mér að þetta væri reið lesbía, ég fattaði. Hver einasti gaur á Q-Bar virtist leita af minnstu ástæðunni til þess að þreifa á manni, ef einhver labbar framhjá þér þá mun sá maður líklega snerta allavega þrjá mismunandi staði á líkama þínum innan við sekúndu. Ég var búinn að frétta það að Q-Bar væri orðinn "gay-bar" á þann hátt að allir séu velkomnir en að fólk á samkynhneigða enda skalans sé í meirihluta svo þetta kom mér varla á óvart. Til þess að hegða sér í takt við þróun tuttugustu og fyrstu aldarinnar þá er málið að bara leyfa þessu gerast, lessur sparka í mann og hommar þreifa á manni, sama hver þú ert þá er mögulegt að finna jákvæða hlið við svona atburðarrás.

Það leið ekki lengi þar ég og félagi minn sem er ekki háður Q-Bar ákvöðum að yfirgefa svæðið, okkur var byrjað að líða svolítið skringilega, Q-Bar fíkillinn ákvað þó að vera áfram og dansa við stelpur sem langlíklegast fíla ekki kynið sem hann tilheyrir. Ekki myndi ég fokking nenna því. En þá kom að brottförinni, við gengum út, lentum í meira veseni og kjaftæði og að lokum þurfti ég að ganga heim frá miðbænum, nálægt klukkutíma ganga en sem betur fer var sæmilega heitt úti.

Þetta kvöld var einnig hálfgert tvítugsafmæli félaga míns, þar sem hann á afmæli nákvæmlega þennan dag.

Fín helgi, eitthvað að gerast allavega... Áður en að próf/verkefnin drepa mann.

Og já, Inland Empire... farðu til andskotans og éttu sjálfan þig.


Sindri Gretarsson.

fimmtudagur, apríl 26, 2007

Rorschach

Í tilefni til þess að Watchmen kvikmyndin er í vinnslu þá ætlast ég til þess að kynna lesendum fyrir mögulegum leikara fyrir Rorschach, mikilvægasta karakter í Watchmen sögunni. Ef Rorschach heppnast 95-100% þá verður myndin drullugóð, þetta er eini karakterinn sem verður að vera fullkominn, það má ekkert bregðast, EKKERT.

En hver í andskotanum getur leikið hann? Rorschach er lítill. Tom Cruise? Ekki fökking séns. Rorschach er rauðhærður, ég meina það er ekkert mál að lita hárið á leikara. Rorschach er mjög ófríður, auðvitað er hægt að nota make-up en það verður að vera leikari sem hefur andlitið hans Rorschach og eftir að ég fletti gegnum imdb messege boards og las mig um þá fann ég einn mjög merkilegan möguleika... Doug Hutchison.

Enginn þekkir nafnið, en flestir munu muna eftir honum sem Percy Wetmore í The Green Mile, leiðinlegi og vondi vörðurinn sem var alltaf að meiða fangana. Hutchison er ekki rauðhærður, en það er hægt að laga það, hann er þó lágvaxinn eins og Rorschach og hérna skal ég sýna ykkur ljósmyndir svo þið sjáið samanburðinn...

Rorschach

Doug Hutchison úr Green Mile

Mynd af leikaranum þegar hann er yngri.



Reynið að blanda báðum myndunum af leikaranum saman, ég sé einhvern sem er mjög líkur Rorschach. Ég efa að þessi leikari verði nokkurn tíman tekinn til greina en hann ætti að vera það.


Meira seinna.


Sindri Gretarsson.

mánudagur, apríl 23, 2007

The Breeding Grounds of Insanity...

... eða með öðrum orðum, menntaskólinn við Hamrahlíð. Reyndar er það frekar þetta tímabil, seinni hluti apríl og fyrri hluti maí mánaðar. Þetta er tímabil þar sem allt þarf að gerast í einu, allar skyldur og öll nauðsynlegu verk stinga þig í bakið. Einhvern veginn hefur íslenskt samfélag náð að stafla öllu mikilvæga saman til þess að eiga sér stað á einu stuttu tímabili, en það er þó líklega skásta tímabilið sem fylgir því og það er sumarið. Eða "The Breeding Grounds of less Insanity" eins og það ætti að kallast. Ég get varla kvartað þó, ég kalla þetta ekki kvörtun heldur ábendingu, þó svo ég hef of mikið að gera þá er ég fullviss um að ég komist glansandi gegnum það þar sem ég hef verið frekar skynsamur þetta árið.

Fyrir fólk á mínum aldri þýðir sumar yfirleitt vinna, ég mun vinna mest allt sumarið við rannsóknarvinnu í Orkuveitunni, skemmtilegt eða ekki það veit ég eigi en ég vonast eftir ágætum launum og það breytir öllu. Ef þú ætlar til Amsterdam í tvær vikur í ágúst þá þarftu að eiga nógan pening, það er einmitt það sem ég ætla að eiga mér, nógan pening. Þið getið rétt ímyndað ykkur hvað ég mun gera þar, en ég get ekki sagt ykkur það að ég sé mögulega ekki að ekki fara að ekki reykja kannabis efni og drekka drullumikið áfengi. Ég er alltof indæll strákur fyrir þess konar stundarbrjálæði og eitthvað sem samfélagið okkar hefur dæmt sem óæskilega hegðun. Enda sagði mamma mín mér það einu sinni að aðeins aumingjar og ruslakallar gerðu svoleiðis og síðan þá hef ég ávallt fylgt leiðbeiningum hennar og orðið að glæsilegu dæmi um uppvakning sem ber í sér engar sjálfstæðar hugsanir.

Ég dreg þetta til baka, það á aldrei að blanda mömmum í svona umræðuefni, það gengur alltaf of langt á endanum :Þ

En ég hlakka til þess að fara til Hollands, land sem hefur hávaxna, fallega og hreinræktaða Aría. Ég sætti mig við ekkert minna en það.


Sindri Gretarsson.

mánudagur, apríl 16, 2007

Bobby

Sindri Gretarsson 16. apríl 2007 **1/2 af ****

Bobby er frumraun hans Emilio Estevez að leikstýra sinni eigin kvikmynd og fjallar hún um u.þ.b tuttugu manns á Ambassador hótelinu þann sama dag og Robert F. Kennedy var myrtur. Það eina sem er sögulega rétt í Bobby er að Robert Kennedy var drepinn, allar persónurnar eru hinsvegar skáldaðar eða lauslega byggðar á raunverulegu fólki sem voru á hótelinu þegar morðið átti sér stað. Aðalkostur myndarinnar er stórt og gott leikaralið, sumir voru betri en aðrir og það reyndist Freddy Rodriguez vera minnisverðugasti leikarinn. Meðal hans koma Shia LaBouf, Laurence Fishburne, Anthony Hopkins og jafnvel þó það hljómi ótrúlegt, þá var jafnvel Lindsay Lohan býsna góð. Gallinn í myndinni fannst mér vera ótraustu tengingarnar milli persónanna, hver einasta manneskjan á að hafa eitthvað tengt við morðið en það er einmitt alveg þó nokkrar persónur sem reyndust alveg tilgangslausar. Mér skilst að hver einasta persóna í myndinni eigi að vera stereótýpa frá 60's tímabilinu, þ.e.a.s lifandi dæmi um hugsunarhátt og líferni á þeim tíma en mér finnst að Estevez hafi kramið einum of mörgum persónum í myndina þar á meðal sjálfum sér sem hafði ekkert að gera í myndinni. Myndin hefði gagnast á meiri einbeitingu gagnvart mikilvægustu persónunum og þá hefði tengingin/morðið á Kennedy verið mun kröftugra atriði. Þrátt fyrir það þá er hægt að hafa vel gaman af þessari mynd, ég hefði viljað sjá aðeins meiri JFK aðferð á mynd byggða á morði Robert Kennedy en það er aðeins mitt kjaftæði. Ég er ekki langt frá því að gefa Bobby þrjár stjörnur en ég gef henni í staðinn mjög pottþéttar tvær og hálfa, gölluð en fín mynd.


Sindri Gretarsson.

fimmtudagur, apríl 12, 2007

1492: Conquest of Paradise

Sindri Gretarsson 12. apríl 2007 ***/****

1492: Conquest of Paradise er mynd sem fær mjög skiptar skoðanir, henni gekk illa í kvikmyndahúsum á sínum tíma og gagnrýnendur voru yfir höfuð ekkert sérlega hrifnir af myndinni. Hinsvegar er ég alger Ridley Scott gelgja og mjög stoltur að því, Ridley Scott er sjónrænn leikstjóri og kvikmyndirnar hans eiga það allar sameiginlegt að vera alveg ótrúlega vel gerðar. Það sem stendur yfirleitt mest uppúr er kvikmyndatakan, hann skapar veröldir gegnum myndavélina og hann gerir það fullkomlega í 1492. Eins og nafnið segir þá gerist myndin árið 1492 á Spáni og fjallar um Kristófer Kólumbus og ferðina hans þvert yfir Atlandshafið til Ameríku. Á þessum tíma var spænski rannsóknarétturinn á hápunkti sínum, fólk var brennt á báli fyrir trúarbrögð sín og skoðanir, Kólumbus eins og hann er gerður í myndinni er sýndur sem samviskusamur draumóramaður sem vill nýjan heim burtu frá öllu þessu veseni á Spáni. Af einhverjum ástæðum var Ridley Scott fastur á því að fá Gérard Depardieu sem Kólumbus þrátt fyrir hans kolþykka franska hreim, en burtséð frá þessum hreimi þá fannst mér hann passa í hlutverkið sitt nokkuð vel. Það tekur mögulega tíma að venjast honum en í lokin þá var ég sannfærður um að þetta væri Kólumbus og ekki Gérard Depardieu. Ridley Scott skapar eins og ég sagði alveg frábæra veröld inn í kvikmyndinni, hann gerir hinsvegar nýja heiminn frekar ofbeldisfullann og þunglyndislegann á meðan Spánn er merkilegt og lífríkt land, mögulega var það viljandi gert. Veröldin er mjög sannfærandi en efnið sjálft er frekar ótraust, handritið er ekki illa skrifað en það er mjög klisjukennt og á pörtum jafnvel hlægilegt. Það er útaf þessu sem margir hreinlega geta ekki fílað þessa mynd, það fór ekki eins mikið í taugarnar á mér og mörgum öðrum, áhuginn minn var alltaf gangandi og annað en mörgum finnst þá fannst mér 1492 ekki vera langdregin. Það verður einnig að benda á það að þó að myndin sé byggð á sögulegum heimildum þá er hún ekki endilega sögulega rétt, Kólumbus var að öllum líkindum morðóður hálviti en kvikmyndin er frekar að fara fantasíu aðferðina á söguna og ekki þá bókstaflegu. Þetta er mynd fyrir þá sem geta notið sín í löngum stórmyndum sem taka sinn tíma í að segja söguna, hún hefur mörg löng og falleg skot drifin áfram af tónlist sem var samin af engum öðrum honum Vangelis, án efa eitt besta tónlistaverk fyrir kvikmynd hingað til. Ef þú grafar eftir göllum þá muntu finna nóg af þeim, en ég hef alltaf gaman af þessari mynd, hún hefur ákveðin fíling sem heldur athyglinni minni uppi.


Sindri Gretarsson.

fimmtudagur, apríl 05, 2007

Sunshine

Sindri Gretarsson 5. apríl 2007 ***1/2 af ****

Sunshine hefur sama söguþráð og hver einasta heimsendamyndin og hefur einnig þá skemmtilega klisju að það þarf einhverja svakalega kjarnorkusprengju til þess að bjarga heiminum hvort það sé halastjarna sem ógnar jörðinni eða kjarni Jarðarinnar sem hættir að snúast eða í þetta skipti, sólin hætti að virka. Það sem Sunshine gerir hinsvegar öðruvísi/betur heldur en aðrar heimsendamyndir er að skapa trúverðugar og raunverulegar persónur sem þér þykir eitthvað vænt um, meðal þess þá fellur Sunshine ekki í neinar Hollywood gryfjur, það eru þó klisjur að eiga sér stað en á litlum skala. Auk þess að vera svakalega flott og ekki bundin við neinar grafískar takmarkanir (þar sem myndin er bresk guðs sé lof) þá er myndin mjög falleg og ógnvekjandi á sama tíma og ekki gleyma mjög gróf í alla staði. Framleiðslugæðin, myrkra andrúmsloftið og persónurnar gera myndina spennandi, þessi óhefðbundna aðferð á þessari heimsendaklisju lætur þig halda að hvað sem er gæti gerst. Heimsendamyndir enda allar eins, en Sunshine heldur hjartanu pumpandi alveg þar til í blálokin út af þessari óhefðbundnari aðferð. Danny Boyle nær að umbreyta þessum klisjukennda söguþræði og gera býsna vel heppnaða kvikmynd, hann hefði getað fallið í skrípaleikinn hvenær sem er eins og vanalega gerist í svona kvikmyndum en maðurinn veit greinilega nákvæmlega hvað hann er að gera. Ég mæli virkilega með Sunshine, sérstaklega þar sem bíósalurinn var mjög fámennur og þar sem Sunshine er ein af betri science fiction kvikmyndum seinustu ára.


Sindri Gretarsson.

miðvikudagur, apríl 04, 2007

Frames of God

Frames of God a.k.a Godframes, eða á íslensku Guðsrammar eru rammar úr kvikmyndum sem eru svo ótrúlegir að gæðastig þeirra jafnast við hinn sanna Guð.

Hér eru nokkur dæmi...
































Þið verðið að viðurkenna að þetta eru svalar andskotans myndir, fyrir utan einn ramma þar sem það sést í bakið á Orlando Bloom, en ég meina, allavega er það bara bakið hans.

(Takið eftir að jafnvægið milli himins og jarðar breytir miklu í mörgum römmunum)


Sindri Gretarsson.