laugardagur, október 28, 2006

The Departed

Sindri Gretarsson 28. október 2006 ****/****

Árið 2006 hefur hingað til verið frekar aumt kvikmyndár, The Departed er ein af fáum kvikmyndum sem standa uppúr þetta árið en þá alls ekki bara út af því að þetta hefur verið aumt kvikmyndaár. Hérna er Martin Scorsese að gera það sem gerir best, fjalla um glæpi og morð á háum skala, í þetta skipti er það mafía vs. lögreglan, í grófum dráttum. Billy Costigan (Leonardo DiCaprio) er lögga úr fjölskyldu sem hefur haft tengsl við glæpasamtök í fortíðinni svo hann er látinn í leyni koma sér í mafíusamtök Frank Costello (Jack Nicholson). Vandamálið fyrir lögreglurnar er að líkurnar benda til þess að það sé uppljóstrari í deildinni þeirra sem gefur Costello upplýsingar um áform þeirra. Söguþráðurinn hljómar frekar eðlilegur, það er ekkert uppúrskarandi eða óvenjulega frumlegt við söguna sjálfa, en handritshöfundurinn William Monahan (Kingdom of Heaven var hans fyrsta handrit sem var kvikmyndað) einbeitir sér í að skapa eins flóknar persónur og hann getur. Tvær aðalpersónurnar virka sem spegilmyndir af hvor öðrum, vandamál Costigans er uppljóstrarinn og vandamál uppljóstrarans er Costigan. Þessi barátta er eldsneyti myndarinnar, allar aukapersónurnar snúast kringum þessa miðju eins og reikistjörnurnar snúast kringum sólina. Fyrir utan tvo þrælsterkar aðalpersónur, sem DiCaprio og Damon léku helvíti vel, þá eru aukapersónurnar jafnvel betri. Ég minnist sérstaklega á þá Mark Wahlberg og Alec Baldwin sem voru alveg kostulegir í sínum hlutverkum, sem ég bjóst alls ekki við að neinu leiti. Fyrir utan húmorinn sem þeir tveir koma með þá er Wahlberg með eina minnugustu persónuna í myndinni. Svo eru aðrir í aukahlutverkjum sem komu vel fram, Ray Winstone, Martin Sheen, David O'Hara, Mark Rolston og Jack Nicholson. Þrátt fyrir frábæran leik hjá Nicholson þá var ég ekki alveg viss með niðurstöðu persónu hans, mér fannst hann ýkt geðbilaður, meira en svo þurfti. En allt þetta sem ég sagði gefur til að kynna vel skrifað handrit með skemmtilegum og eðlilegum samræðum og persónusköpun sem oftar en ekki kom vel á óvart. Mér leið eins og ég væri að horfa á forngríska sápuóperu sem gerist í nútímanum, en þá meina ég það á mjög góðan hátt. Ég hef ekki séð Infernal Affairs, asísku myndina sem átti upprunalegu hugmyndina fyrir The Departed svo ég get engan vegin sagt um munin milli þessara tveggja mynda svo ég var alls ekki viss við hverju ég átti að búast, það má deila um hve góðar myndirnar hans Scorsese hafa verið seinustu ár. Persónulega fílaði ég þær allar en þetta er án efa besta mynd Scorsese síðan allavega Casino jafnast nokkurn vegin við Goodfellas. Fyrir svona kvikmyndaár eins og 2006, þá er getur The Departed auðveldlega sitið í hásæti ársins, þ.e.a.s ef engin önnur betri kvikmynd kemur út fyrir áramót. The Departed er nákvæmlega það sem ég hef beðið eftir að sjá þetta árið, og ég vil meira af þessu, og þess vegna gef árinu ennþá tækifæri. Til þess að ljúka umfjölluninni þá vil ég að lokum undirstrika það að The Departed er mynd sem á það skilið að vera kallað meistaraverk, ég vil helst þó bíða og sjá myndina allavega sjá hana einu sinni enn til þess að geta dæmt um það með nákvæmni, en þetta er besta mynd ársins hingað til, hún kom mér alls ekki að vonbrigðum og ég held að hún muni ekki koma neinum að vonbrigðum.


"Well, Whoop-Dee-Fucking-Doo."


Sindri Gretarsson.

mánudagur, október 23, 2006

Ævisekúnda Nr.1000.000.000.000

Þetta kallast "erfiðleikar" með að ákveða líf sitt, þegar þú ert kominn svo djúpt inn í ákvörðun að þú byrjar að efa allt líf þitt frá upphafi. Satt, þetta er einskonar aðferð til þess að vorkenna sjálfum sér en þetta er líka góð aðferð til þess að komast að niðurstöðu.

Ég ligg í kafi í skólum, og ég veit núna, að sama hvaða skóla ég geng í þá er ég alveg jafn leiður á honum og hverjum öðrum skóla. Ég hef svo mikið að gera, að ég sleppi nánast að gera það allt.

Hvað gerðist við menntaskólaárin? Í raun er ég enn á þeim aldri, en ég er varla í menntaskóla lengur, en nýlega hef ég hugsað mikið um hvað gerðist við allan þennan tíma. Það átti að vera svo gaman að fara úr grunnskóla í menntaskóla, en einhvern megin þá fokkaðist allt upp fyrir flest öllum.

Ég get/má ekki sjá eftir því sem hefur gerst en hluti af mér óskar sér að hafa haldið áfram í menntaskóla og klárað hann almennilega.

Þetta er aðeins byrjunin á "Hvað er, og hvað hefði geta verið" spurningunni. Lífið er að hlaupa framhjá manni hraðar en áður, það var árið 2003 í gær, sumarið þetta ár hvarf í skýji af minningum. Ég vil fá jólin 2004 aftur, ég man að það tímabil var andskoti gott.

Ég verð þunglyndur að hugsa um þetta, á morgun verður árið 2010, og ég mun skrifa aðra ræðu um sama efni og ekki læra neitt nýtt af því sem ég skrifa hér og nú.

Og já, seinast, þann 31. desember 2005 þá skrifaði ég þetta á blogginu.

"Ef Quentin Tarantino hvetur þig til þess (að fara í kvikmyndaskóla) af hverju ætti maður þá að efa það? Svo ef allt feilar þá get ég alltaf kennt honum um ef ég lendi í einhverju sjálfsvorkunarskapi"

Ég get ekki sagt að neitt hafi feilað, en ég er samt í sjálfsvorkunarskapi, svo að...

Takk fyrir Quentin Tarantino...


Assaalamu Alaikum.


Sindri Gretarsson.

miðvikudagur, október 18, 2006

A Scanner Darkly

Sindri Gretarsson 18. október 2006 ***1/2 af ****

Eftir nógu langa bið þá loksins fær maður að sjá A Scanner Darkly, mynd sem hefur lent í stanslausu veseni útaf sinni nýrri Rotoshop aðferð, nýsköpuð tækni sem teiknar yfir stafrænu mynd og gerir A Scanner Darkly eins og hún sést á skjánum. Byggð á samnefndri bók eftir Philip K. Dick, þá fjallar myndin um Fred (Keanu Reeves), leynilögreglu árið 2012-2013 sem notar ´scramble-suit´ sem breytir útliti hans og rödd reglulega sem gerir hann óþekkjanlegan. Verkefni hans er að finna stóra fíkniefnasala og komast að hvaðan Substance D kemur, sem er eitt skaðlegasta og mest vanabindandi fíkniefni fyrr og síðar. Alvöru nafn Freds er Bob Arctor og sem Bob þá lifir hann fíkniefnalífi með ´vinum sínum´ sem hann þarf að nota til að afla upplýsinga, þar á meðal Barris (Robert Downey Jr.), Ernie (Woody Harrelson) og semi-kærustunni sinni Donna (Winona Ryder). Eftir of langa fíkn á Substance D þá verður heili hans að tveimum ólíkum hliðum, ein hliðin er Fred og hin er Bob og eru þessar tvær hliðar að keppast um yfirráð. Það sem A Scanner Darkly gerir frábærlega, er að hreinsa í burtu allt dæmigerða bias gegn fíkniefnum, sem gerir hlutlausa skoðun á málinu mun auðveldari. Bókin/myndin gerast á tíma þar sem Bandaríkin hafa tapað stríðinu gegn fíkniefnum og fíklar eru orðinn mikill hluti landsmanna svo myndin hneigist aðeins meira að anarkisma heldur en neinu öðru. Þrátt fyrir helling af fíkniefnum og skrítnu fólki að hegða sér skringilega leynist gífurlega pólitísk saga sem sker alveg jafn djúpt í nútímamál og það gerði þegar bókin var skrifuð fyrir u.þ.b þrátíu árum síðan. Keanu Reeves, leikari sem er mjög ´misfílaður´ af fólki, stendur sig furðulega vel sem Fred/Bob og nær virkilega að sannfæra mann að hann sé ekki bara Keanu Reeves heldur persóna í söguhlutverki. Hann er að mínu mati mistækur eftir kvikmyndum en A Scanner Darkly er eitt hans besta hlutverk síðan The Devil's Advocate. Robert Downey Jr. og Woody Harrelson sem hafa báðir átt langa sögu af fíkniefnaneyslu ná gallalaust að leika fíkla, enda þekkja þeir lífið betur en margir aðrir. Winona Ryder sem hefur bara lent í veseni með búðahnupl og slæm hlutverk eins og Mr. Deeds síðan byrjun aldarinnar gerir eitthvað merkilegt loksins, ekkert stórkostlegt en það sést að eitthvað býr ennþá í henni og vonandi lætur hún sjá sig eitthvað meira í framtíðinni. Fyrir utan A Scanner Darkly hef ég aðeins séð eina Richard Linklater mynd sem var School of Rock, ég viðurkenni vanrækslu mína í þessu máli og ætlast til þess að horfa á fleiri Linklater myndir þá sérstaklega eftir að hafa séð A Scanner Darkly. Þessi mynd er jafn skrítin og hún er góð, einhverjir gætu fundið þennan Rotoshop stíl pirrandi eða tilgangslausan en þar sem hann er mjög vandaður og passar við súra veruleikann sem myndin gerist í, þá fannst mér aðeins góðir hlutir myndast úr því. A Scanner Darkly er mjög sérstök mynd, en ein af betri myndum ársins, og eftir haust af vonbrigðum í bíóhúsum þá er myndin bjartur depill og ég vona að fleiri svona gæðamyndir fara að koma sér í bíó bráðum.


Assalaamu Alikum.


Sindri Gretarsson.

þriðjudagur, október 17, 2006

Dramahelgi...

Þessi nýliðna helgi var sannkölluð dramahelgi, þrátt fyrir sín merkilegheit þá varð lokaniðurstaðan á myrkari nótunum. Þá meina ég aðallega í afmælisveislu hennar Arenu á laugardaginn, veislunni gekk bara afskaplega vel, ég fékk að drekka nóg af áfengi og þar sem annað fólk drakk jafn mikið eða meira, þá virkilega hló það að brandörum mínum, sem er sjaldgæft í edrú umhverfi.

Ég og Þór fengum far hjá honum Nökkva áleiðis til Arenu, en þeir tveir beiluðu eftir aðeins tvo klukkutíma, betra eða verra er ég ekki viss en það gaf mér betra tækifæri til þess að tala betur við fólkið í veislunni, hinsvegar talaði ég meira við fólk sem ég þekkti fyrirfram, t.d Tomma og Arenu.

"Dramaið" byrjaði ekki að myndast fyrr en seint um nóttina, eftir smá stelpuvandræði (sem tengdust mér ekki) þá var aðalmálið einn óboðinn og blindfullur gestur sem langaði af einhverjum furðulegum ástæðum að lemja langflesta í boðinu. Ekki einu sinni allir viðverandi gestir né Arena gátu fengið hann til þess að fara, löggan kom og náði að róa hlutum niður en aðeins tímabundið þar sem ég frétti að hann hafi komið aftur um nóttina, meðan ég svaf.

Skondið með svona gaur sem hefur einhverskonar ofbeldishneigð, því þessir gaurar mega alls ekki drekka, það er hættulegt fyrir þá og aðra. Mín persónulega heimspeki gagnvart drykkju er að drekka áfengið sitt hægt þar til þú finnur fyrir vellíðunni, meðal þess verðuru djarfari og samskiptalauslátari, sem er önnur útskýring fyrir að vera létt-drukkinn. Eftir það þá drekk ég enn hægar, þar til að lokum ég hætti, því meira áfengi getur orsakað meiriháttar ástandi daginn eftir. Og ekki gleyma þá drekk ég alltaf nóg af vatni eftir áfengið, ég nenni bara aldrei að vera þunnur, það er hundleiðinlegt ástand sem ég þoli ekki. En auðvitað þá sleppi ég þessari heimspeki nógu oft og bara drekk þar til ég fæ nóg, sama hvernig dagurinn eftir verður.

En það er ein alheimsregla um svona fólk sem kann ekki að stjórna sér... Það má ekki drekka áfengi.

Enda náði þessi gaur að næstum eyðileggja fullkomlega vel heppnað afmælisboð, sem er skömm fyrir hana Arenu, þar sem þetta var átján ára afmæli, hennar eina átján ára afmæli og ég ímynda mér að henni hefur hlakkað til þess nokkuð mikið.

En á bjartari nótum þá hef ég nokkrar skemmtilegar myndir til þess að sýna...



Tommi sér eitthvað, það er greinilega eitthvað rosalegt, eitthvað ótrúlegt, eitthvað sannarlega einstakt.



Arena sér það líka, sjitt, þetta hlýtur að vera einhver óendanlega, stórkostleg og gífurleg sjón að sjá. Eitthvað sem lætur mann trúa á Guð aftur, eitthvað svo magnþrungið að það hlýtur að vera til Guð sem skapaði það!



___




Jebb, það er ég. Ég er svo ótrúlega sætur, að myndatökumanneskja hefur tíma til þess að ná myndum af fólki stara á mig. Ef það er ekki einstakt, þá veit ég ekki hvað er það.



En já, hérna niðri er link að síðu sem hefur einhverjar 229 myndir af afmæli Arenu, endilega tjekkið á því, nóg af mér í því...


http://dancingdoe.spaces.live.com/?_c11_photoalbum_spaHandler=TWljcm9zb2Z0LlNwYWNlcy5XZWIuRG93bmxldmVsLlBhcnRzLlBob3RvQWxidW0uRnVsbE1vZGVSZXF1ZXN0SGFuZGxlcg%24%24&_c11_photoalbum_spaFolderID=cns!E7CB9EFCBF5952F0!1590&_c=photoalbum


Ég sofa...


Assalaamu Alaikum.


Sindri Gretarsson.

fimmtudagur, október 05, 2006

World Trade Center

Sindri Gretarsson 4. október 2006 **1/2 af ****

World Trade Center er önnur myndin þetta árið sem ég sé sem fjallar um árásirnar þann 11. september 2001, sú fyrri verandi hin magnþrungna United 93 og þrátt fyrir sína kosti þá fellur World Trade Center í skugga United 93. United 93 var grípandi og sleppti manni aldrei frá skjánum, hún hélt manni stífan við sætið að bíða eftir að sjá meira, World Trade Center hefur þetta ekki. Þeir Nicholas Cage og Michael Pena leika þá John McLoughlin og William Jimeno sem festust undir rústunum á tvíburaturnunum og voru meðal þeirra seinustu sem var bjargað, megnið af skjátíma þeirra gerist í þeim aðstæðum og gegnum það er fortíð þeirra kynnt í sambandi við fjölskyldur og eiginkonur þeirra. Það er janmikil klisja og það hljómar, en þar sem þetta er sönn saga frá sjónarhorni alvöru mannana þá verður að gefa myndinni plús fyrir það. Hinsvegar þá vantar allt aðdráttaraflið til þess að viðhalda væmninni, sem hún tapaði sér oft í, helmingurinn af myndinni fjallar um harmleika fjölskyldna og konur þeirra en myndin á sér hræðilega bágt með að heilla áhorfendann með persónunum og aðstæðunum sem þau lenda í. Þessi harmleikur sem átti sér stað 11. september var ekki til staðar, ég fann ekki fyrir honum. Nicholas Cage og Michael Pena léku þó mjög vel í hlutverkjum sínum, sama með alla leikarana, allir voru sannfærandi. World Trade Center er eins ólík Oliver Stone myndum og hægt er að vera, ég hefði aldrei getað trúað því að Stone væri leikstjórinn hefði ég ekki vitað það. Hvort það sé góður hlutur ekki, en ég fíla eldra Oliver Stone myndirnar og ég er byrjaður að sakna þeirra. Með allri virðingu fyrir fólkinu sem dó í árásunum eða lifðu af, þá var World Trade Center ekki að ná til mín eins og hún hefði getað, hún er ágætis kvikmynd en lítið meira en það.


Assalaamu Alaikum.


Sindri Gretarsson.