miðvikudagur, febrúar 28, 2007

Barton Fink

Sindri Gretarsson 28. febrúar 2007 ***1/2 af ****

Cohen bræðurnir eru meistarar í handritskrifum, frumleiki þeirra felst ekki í söguþræðum, það er reyndar oft sem söguþræðir eru nánast ekki til staðar eða stanslaust á sveimi, heldur felst frumleiki þeirra í persónusköpun og samræðum. Barton Fink er mögulega besta dæmi Cohen bræðranna í þessu samhengi, myndin hengur gersamlega á sniðugu handriti og góðum leikurum. Barton Fink (John Turturro) er ungt leikhússkáld sem fær tilboð um að skrifa glímumyndir í Hollywood árið 1941, á hóteli sínu þar hittir hann Charlie Meadows (John Goodman), sölumann sem verður góður vinur Finks. Þetta er án efa eftirminnanlegasta frammistaðan hans John Goodman, óskarsverðug að mínu mati. Söguþráðurinn er eins og ég sagði ekki það mikilvægur þar sem ég get varla sagt meira um hann, en þetta er alls ekki öll myndin. Myndin nær að fljóta vel áfram þrátt fyrir mjög sterkan Cohen stíl sem fjallar um mjög súrt efni, myndin er stútfull af myndlíkingum og karakterum sem eiga að tákna ýmsar stereótýpur og umheimurinn í myndinni er það takmarkaður að ég held að aðeins ein sena sem gerist utandyra. Barton Fink er einstök að því stigi að tilgangurinn með myndinni reynist mjög óljós í lokin, en þrátt fyrir það þá er myndin stanslaust athyglisverð og alls engin tímasóun þar sem heilinn er starfandi á tvöfalt meiri virkni við áhorf. Ég var einfaldlega hissa, ég bjóst engan vegin við hvernig mynd þetta væri, hún er ein af betri myndum Cohen bræðranna og ég mæli með henni fyrir hvern sem hugsanlega gæti haft áhuga á því sem ég hef skrifað hér að ofan.


"CHARLIE: Look upon me! I'll show you the life of the mind!"


Sindri Gretarsson.

sunnudagur, febrúar 25, 2007

Running Scared

Sindri Gretarsson 25. febrúar 2007 ***/****


Running Scared er mynd sem ég sé eftir að hafa ekki séð fyrr, Paul Walker er eða var allavega eitt mesta turn-off þegar það kom að kvikmyndum og þar af leiðandi var áhugi minn nánast enginn þegar myndin var sýnd í bíóhúsum. Það er þó skemmtilegt þegar mynd kemur þér á óvart, Running Scared er eðaldæmi um kvikmynd sem líkist nútímamyndasögum mest. Söguþráðurinn er mjög myndasögulegur og myndatakan/klippingin líkist myndasögum (og nýju Tony Scott myndunum) en aðallega er það ofbeldið sem sýnir sig mest, semsagt mjög gróft og yfirdrifið. Ég hefði átt að hafa meiri trú á leikstjóranum Wayne Kramer sem gerði The Cooler, hann sýnir það með Running Scared hve svakalega óhefðbundinn leikstjóri hann er, í augum hans eru kvikmyndareglur aðeins lego kubbar til þess að leika sér með. Fyrir utan það að myndin kom mér vel á óvart þá kom Paul Walker mér einnig á óvart, Running Scared er án vafa hans besta hlutverk hingað til, hann getur allavega leikið og Running Scared sýnir það. Yfir heildina er Running Scared bara býsna góð, mjög óhefðbundin mynd, því minna ég segi um hana því betra, en ég get allavega mælt með henni fyrir alla þá sem eru djúpt grafnir í myndasögur.


Sindri Gretarsson.

miðvikudagur, febrúar 14, 2007

Perfume: The Story of a Murderer

Sindri Gretarsson 14. febrúar 2007 ***1/2 af ****

Ég held að þessi mynd sé einhver sú siðbrenglaðasta kvikmynd sem ég hef séð lengi, en einhvern veginn þá náði hún að fela því fyrir mér. Öll myndin er byggð á hugarheimi morðingja sem finnst ekkert sjálfsagðara heldur en að gera það sem honum sýnist til þess að fá það sem hann vill, ég fór að venjast siðleysinu eftir aðeins fáeinar mínútur og það var ekki fyrr en tveimum klukkutímum inn í myndina þar sem ég fattaði það og á þeim punkti var ég orðinn það tengdur morðingjanum að ég gat ekki litið á hann með illum augum. Eins og nafnið bendir til þá fjallar myndin mikið um ilmvatn, aðalpersóna myndarinnar Jean-Babtiste Grenouille (Ben Wishaw) var fædd með þann eiginleika að geta þekkt lyktina af hverju sem er, en Babtiste var alinn upp á munaðaleysingjahæli og var mjög illa uppalinn og á þar af leiðandi erfitt með að skilja annað mannfólk. Lykt er það eina sem gefur honum lífsvilja og þegar hann finnur mest seðjandi lykt sem hann hefur lyktað þá gengur hann of langt til þess að eignast hana. Karakteruppbyggingin hans Babtiste var það vel uppsett að þegar að kom að þeirri stundu að ég átti að hata hann þá fór ég að finna til með honum. Það er örugglega rangt af mér að kalla þessa mynd siðlausa eða siðbrenglaða, en allavega þá var mínu siðferði rifið í sundur og kastað í einhvern ofn. Hljómar eins og spaug en ég er að reyna orða niðurstöður myndarinnar eins vel og ég upplifði þær. Öll kvikmyndagerðin sjálf var stórkostleg, myndatakan þá sérstaklega en allir leikararnir voru góðir í sínum hlutverkum og Ben Wishaw passaði nákvæmlega sem Babtiste. Perfume: The Story of a Murderer er nýtt fyrirbæri í kvikmyndaheiminum, en á sama tíma þá virðast margir ekki fíla myndina, einhvern veginn held ég að þetta tvennt sé tengt. Öll hnakkamenning Íslands má sleppa þessari mynd þar sem hún er ekki aðeins mjög löng heldur einnig of djúp fyrir þannig mannskap. Hinsvegar þá er aðalgalli myndarinnar í lengdinni, sagan missti fókusinn á pörtum en náði þó alltaf að koma sér aftur á braut. Ég tel Perfume sem eina af betri myndum ársins 2006, en ég get ekki lofað að lesandinn muni fíla myndina jafn mikið og ég gerði.


Sindri Gretarsson.

mánudagur, febrúar 05, 2007

Total Recall

Sindri Gretarsson 5. febrúar 2007 ***/****

Það er svo yndislegt að horfa á Arnold Schwarzenegger drepa fólk, hvað er betra heldur en að horfa á Arnold í ofbeldisyfirdrifinni-súrréalískri-mindfökking Paul Verhoeven kvikmynd? Total Recall er klassísk vísindaskáldsaga byggð á Philip K. Dick smásögu, Arnold leikur Douglas Quaid, venjulegann verkamann árið 2084 sem ákveður að fara í Rekall, fyrirtæki sem gefur þér minningar af skemmtiferðum og þannig fríum. Þaðan fer líf Quaid í mjög óvænta stefnu, meira er varla viturlegt að segja án þess að mögulega skemma myndina fyrir lesanda. Total Recall er ein af mörgum Schwarzenegger myndum sem er nostalgíuveisla fyrir sjálfan mig þar sem ég sá þær allar margoft á mjög ungum aldri, ég tel að þær hafa allar skilið eftir sér stór áhrif á hvernig ég hugsa um kvikmyndir og kvikmyndagerð. Fyndið að þegar ég hugsaði um Total Recall þegar ég hafði ekki séð hana í mörg ár þá mundi ég alltaf eftir bútum í myndinni sem innhéldu svakalega ofbeldisfull augnablik. Paul Verhoeven hefur svakalegt fetish fyrir grófu kynlífi en einnig grófu ofbeldi og af því síðarnefnda er nóg af í Total Recall, sem er frábært. Hinsvegar þá er líka sögurþráður og jafnvel persónur í myndinni, en Arnold gefur þannig geisla frá sér að einhvern veginn hættir myndin að geta verið alvarleg en Total Recall er alls ekki mynd sem er fullalvarleg, þvert á móti tel ég. Tæknibrellurnar eru fyrsta flokks gæði miðað við 1990 en það merkilegasta tel ég vera brúðurnar eða tæknin notuð í að skapa gerviandlit og gervimanneskjur, þó stundum augljósar þá verður að segjast að það var helvíti vel gert. Total Recall er líklega eina vísindaskáldssögu-kvikmynd sem hefur þann kost að hafa mjög hugmyndaríkt ofbeldi, kannski telst Starship Troopers með enda er það einnig Verhoeven mynd. Myndin hefur sína kosti og galla, þrátt fyrir að ég tel hana vera frábæra þá hefur hún of stóra galla til þess að einfaldlega fá fullt hús, en skemmtanagildið er mikið og fyrir hvern sem fílar one-linera hjá Arnold og yfirdrifið ofbeldi blandað saman við hugmyndaríkt framtíðarumhverfi og hefur ekki séð Total Recall, þá skaltu ekki hika við að sjá hana sem fyrst.


*Quaid is strapped to a mind controlling device*

COHAAGEN: Relax, Quaid. You'll like being Hauser again.
QUAID: The guy's a fucking asshole!

---

*Quaid is confused*

QUAID: If I am not me, den who da hell am I?

___

*Quaid has Richter hang from an elevator and both his hands are ripped off*

QUAID: See you at the party Richter!

*Richter falls down and Quaid throws his hands down with him*


Yndislegt...


Sindri Gretarsson.

sunnudagur, febrúar 04, 2007

The Good German

Sindri Gretarsson 4. febrúar 2007 **1/2 af ****

Þessi mynd er tilraun í eldri stíl kvikmyndagerðar, burtséð frá leikurunum, kynlífinu, blótsyrðunum og ofbeldinu þá gæti The Good German verið bandarísk kvikmynd frá 1947. Allt frá myndatöku til leikstíl er tekið frá þessu tímabili, en þrátt fyrir mikil stíltilþrif og góð framleiðslugæði þá er sagan jafn svarthvít og myndin sjálf og persónurnar frekar dauðar. Myndin byrjar í júlí árið 1945 og Jake Geismar (George Clooney) er fréttamaður fyrir New Republic nýlega kominn til Berlín til þess að fjalla um friðarráðstefnu þegar hann skyndilega hittir Lenu Brandt (Cate Blanchett) fyrrverandi elskuhuga sinn. Úr þessum söguþræði myndast vefur af fléttum tengdar saman við margar persónur, því lengra sem sögunni gengur áfram og því fleiri persónur og söguþræðir blandast inn því þreyttari verður myndin. Soderbergh sýnist mér hafa einbeitt sér einum of mikið á stílinn og of lítið á innihaldinu, en mögulega gæti það verið viljandi til þess að reyna líkjast meira myndunum frá þessu tímabili. Karakterleysið í myndinni drepur alla hugsanlega spennu og endinn hefur litla sem enga spennu, sem skilur mann eftir með nánast ekkert til þess að muna eftir, sérstaklega þar sem The Good German er morðsaga. Það er hinsvegar þessi gamli stíll sem gerir myndina sérstaka, en ekkert annað en það, yfir heildina þá er The Good German mjög athyglisverð tilraun í rætur kvikmyndagerðar en hefur alls ekki nógu sterkar persónur til þess að halda sögunni gangandi á neinn áhrifaríkan hátt. Það er mitt lokaálit, myndin er ágæt fyrir það sem hún er en stórgölluð á mörgum sviðum.


Sindri Gretarsson.

The Prestige

Sindri Gretarsson 4. febrúar 2007 ***1/2 af ****

Christopher Nolan hefur sér þann vana samkvæmt fyrri myndirnar sínar að halda sögunni sífellt gangandi, það er aldrei neinn hægur né veikur punktur því að hraðinn í framvindunni er stanslaus og klippingin er svo hröð, en það virkar alltaf. The Prestige er nákvæmlega svona, það er erfitt að koma henni saman en hún er samt sáraeinföld, söguþráðurinn er ekki flókinn en tímaleysið í uppbyggingunni og endurlitin gera söguna mun erfiðari að seta í rétt samhengi. Myndin fjallar í stuttu máli um Robert Angier (Hugh Jackman) og Alfred Borden (Christian Bale) sem verða óvinir eftir að Borden orsakar versta slys fyrir Angier. Seinna þegar Borden finnur uppá eitt besta töfrabragði í heiminum þá verður Angier óður í að komast að leyndarmálum hans Borden. Verður það að keppni tveggja manna sem óendanlega mun ganga alltof langt fyrir þá báða. Má merkja Prestige sem nýjustu tilraun Christopher Nolan og bróður hans Jonathan Nolan í frumleika, handritið þeirra er býsna vel skrifað og sýnir góðan skilning á undirstöðu töfrabragða enda byggir hún alla myndina á því, brögðin sjálf koma vel út á mynd, mér leið nánast eins og ég væri að horfa á þau á sviði meðan þau áttu sér stað. Hugh Jackman, sem er víst hörkugóður leikari á sviði, sýnir það í The Prestige með frábærar sviðsframkomur og auðvitað góðan leik í allri myndinni og sama má segja um Christian Bale, sem hefur hinsvegar mun færri tækifæri til þess að sýna sig vel á sviði. Það er mjög mikilvægt að þú spennir athyglinni frá fyrstu sekúndu myndarinnar ef þú vilt skilja brögðin bakvið söguna því hvert einasta atriði inniheldur upplýsingar um lausnir raðgátur myndarinnar. Mér fannst hinsvegar þessi hraði sem myndin heldur sér yfirlíta suma mikilvæga hluti fyrir aukapersónurnar, þrátt fyrir að vera AUKApersónur þá fannst mér það hefði verið hægt að bæta inn aðeins meiri áherslur fyrir þær. Einnig er notað hræðilegt poplag í lokatextunum sem gersamlega eyðilagði endastafina, hinsvegar eru þetta ekki nægar ástæður til þess að draga niður heila kvikmynd. The Prestige er ein af betri myndum ársins og ein af þeim merkilegri, hún hefur nánast ekkert sameiginlegt með The Illusionist fyrir utan það að báðar myndir fjalla að hluta til um töfrabrögð. Christopher Nolan er að hækka í áliti eftir hverja einustu mynd og ef hann heldur svona áfram þá ætti hann að verða af einum bestu kvikmyndagerðamönnum samtímans, en það kemur í ljós.


"ALFRED BORDEN: Are you watching closely?"


Sindri Gretarsson.

The Last King of Scotland

Sindri Gretarsson 4. febrúar 2007 ***/****

Árið er 1970, Nicholas Garrigan er ungur skoskur læknir sem fer til Úganda í ævintýraþrá eftir að vera orðinn þreyttur af fjölskyldulífi sínu heima, þar hittir hann nýja forsetann Idi Amin. Amin er mjög hrifinn af Skotlandi og Garrigan verður persónulegi læknir og vinur Amin, Garrigan sem er ungur og frekar óþroskaður í skapgerð tekur við öllu sem Amin býður honum, þar á meðal stöðu við að vera einn helsti ráðsmaður hans. Pólitísku aðstæðurnar í Úganda fara að versna og Amin breytist hægt í morðóðann einræðisherra, Garrigan verður þá fastur í gripum Amin og á jafnvel að hluta til þátt í fjöldamorðum Amin án þess að gera sér grein fyrir því. Idi Amin sem er söguleg manneskja, er einstaklega vel leikin af Forest Whitaker, Amin er eins og stórt barn sem sett er í stöðu forseta, hann er morðóður, ógnvekjandi, samviskulaus og miskunarlaus en samt fyndinn og skemmtilegur á sama tíma. James McAvoy leikur Garrigan sem er skálduð manneskja hinsvegar, en hann stendur sig vel og gefur áhorfendanum einhverja persónu sem hægt er tengja sig betur við. Myndin er byggð á samnefndri bók eftir Giles Foden og er Nicholas Garrigan byggður að hluta til á manneskju sem var undir stjórn Amin svo að myndin hefur einhver söguleg gildi, sumu er breytt og þessu þjappað saman en myndin byggir söguna sína alla kringum sögulega atburði. Myndin hegðar sér eins og kennsla í siðfræði sem sýnir hvernig minnstu ákvarðanir geta breytt öllu, Amin og Garrigan eru báðir eins og stór börn aðeins á sitthvorum enda skalans en hafa þó stór áhrif á hvorn annan. Þegar raunveruleikinn fer að taka yfir líf Garrigans þá verður örvæntingin ráðandi, hann hefur komið sér í verstu hugsanlegu aðstæður útaf sitt eigið þroskaleysi. The Last King of Scotland er mjög vel gerð en hefði gagnast betur af þéttari uppbyggingu og meiri áherslu á afleiðingum gjörða Idi Amin, en annars þá er myndin vel heppnuð og mun vera eftirminnanleg útaf frammistöðu Forest Whitakers.


"IDI AMIN: If I could be from anywhere except Uganda, I would be a Scot! I love *everything* about Scotland!... Apart from red hair, which your women may find attractive but which in Africa is quite disgusting."


Sindri Gretarsson.

föstudagur, febrúar 02, 2007

The Queen

Sindri Gretarsson 2. febrúar 2007 ***/****

The Queen fylgir sögulegum heimildum nokkuð nákvæmlega eftir þar sem atburðirnir áttu sér stað fyrir aðeins meira en níu árum síðan. Árið er 1997 og Tony Blair er kosinn forsetisráðherra Bretlands en ekki löngu seinna þá deyr hún Diana prinsessa í bílslysi í París. Þessi atburður gefur frá sér höggbylgju af sorg um allan heim, en konungsfjölskyldan í Bretlandi sýnir engar greinilegar tilfinningar gagnvart dauða hennar sem skapar erfiði milli almúgans og konungsfjölskyldunnar. Grafið er djúpt inn í sálarlíf Elizabeth II, drottningarinnar sem er mjög köld og aristókratísk að eðli sem gerir það erfiðara fyrir Tony Blair að þóknast hennar. Ég skil af hverju Helen Mirren er að sópa öll leikaraverðlaun til sín, hún var ekki að leika Elizabeth hún var Elizabeth. Hinsvegar finnst mér frammistaðan hans Michael Sheen sem Tony Blair frekar hundsuð, hann nær að leika á móti Mirren sem Elizabeth og samt skilja eftir sig stór spor í myndinni, ég held að Sheen hefur sannað sig í kvikmyndaheiminum eftir þetta hlutverk. Alex Jennings leikur Prins Charles frábærlega og James Cromwell einnig sem Prins Philip, hver einasti leikari náði að leika sögulegu persónurnar sínar sannfærilega. Raunveruleikinn í The Queen náði að sannfæra mig, stundum leið mér eins og ég væri að horfa á blöndu af kvikmynd og heimildarmynd, mér leið sjaldan eins og reyna væri verið að ýkja eða stækka atburði meira en þeir voru. En þar fellur einnig áhuginn smávegis niður, myndin heldur ákveðinni línu og er ekki að reyna ná neinum ákveðnum hápunkti. Söguþráðurinn sjálfur er jafnvel ekki alveg nógu spennandi til þess að gera spennandi mynd en í staðinn þá eru allar persónurnar höndlaðar rosalega vel. Þegar myndinni er lokið þá hefuru fengið góða innsýn inn í heim bresku konungsfjölskyldunnar og samband hennar við ríkisstjórnina og fólk þess, og einnig innsýn í hvernig aðstæður konungsfjölskyldan þurfti að komast gegnum eftir dauða Diönu prinsessu. Miðpunkturinn er þó samband drottningarinnar við Tony Blair forsetisráðherra, sem reyndist mjög merkilegt að fylgjast með aðallega útaf frábærum leikurum, auðvitað var handritið vel skrifað en leikararnir bera það á hásæti. Það er mitt lokaálit, mjög góð mynd, en byggist aðallega á sigurgöngu leikaranna í sínum hlutverkum.


Sindri Gretarsson.