laugardagur, desember 31, 2005

Kvöldstundin með Quentin Tarantino...

Þá er ég kominn af kvöldstundinni með Quentin Tarantino, hann sýndi okkur þrjár merkilega dubbaðar kung-fu myndir frá 1978-1979. Ég er í engu skapi til þess að nefna þær þrjár myndir þar sem ég er mjög þreyttur og nenni einfaldlega ekki til þess að stafa Asísk nöfn niður í tölvu, það krefst of mikla hugsun til þess. En það verður að segjast, allar myndirnar voru nákvæmlega eins af uppbyggingu og persónusköpun, við lokin þá varstu hættur að geta sagt hvaða mynd sé hver. Annars þá var þetta spennandi, ég fékk að tala við hann Tarantino í tíu mínutur, við ræddum um ýmsa hluti. Meðal þess þá spurði ég hann um Kill Bill Box-settið sem átti að koma út fyrir hálfu ári síðan, samkvæmt honum kemur það út árið 2006. Það er varla hægt að fá betri staðfestingu annars staðar í heiminum svo ég verð að treysta honum. Svo fékk ég staðfestingu með kvikmyndaskólann, á milli spurninganna ræddum við Þór við hann um kvikmyndaskólann og hann sagði "That's just Great!". Ef Quentin Tarantino hvetur þig til þess af hverju ætti maður þá að efa það? Svo ef allt feilar þá get ég alltaf kennt honum um ef ég lendi í einhverju sjálfsvorkunarskap. Helvíti fínn gaur hann Quentin, það var þó augljóst hve mikil athyglisjúklingur hann er, hann dýrkaði að fá alla í kringum sig til þess að hlusta á sjálfan sig röfla um hvað eina. Árið 2005 varð ennþá athyglisverðara undir lokin, rétt við lokin, sem er hentugt.

Sindri Gretarsson.

fimmtudagur, desember 29, 2005

Jæja...

Þá er árið 2005 komið í sögubækurnar, margt athyglisvert gerðist þetta ár. Ég fékk að dunda mér sem hermann í Flags of our Fathers, fyrir utan það þá er lítið merkilegt sem hefur gerst fyrir mig þetta ár en ég vona að 2006 muni ganga betur þar sem ég fékk inngöngu í kvikmyndaskóla Íslands. Ekki aðeins ég heldur hann Þór vinur minn, af u.þ.b 30-40 sem sóttu um þá vorum við tveir valdir og þar sem aðeins 12 manns fá inngöngu yfir eina önn þá verður það að teljast afrek. Síðan ágúst 2004 höfum við Þór íhugað um að sækja um í kvikmyndaskólann, en ávallt var það eitthvað sem kom í veg fyrir það. Fyrst voru það mínir djöflalegu foreldrar sem héldu dauðataki yfir lífi mínu, samkvæmt þeim þá "Á ÉG AÐ KLÁRA MENNTASKÓLA FYRST!". Svo var það ég sem ætlaðist í smá tíma að reyna það, eins og er þá hef ég klárað 66 einingar sem er 48,5% af öllum einingunum sem ég á að taka, en að lokum undir áhrifum ýmissa hluta (þar á meðal hann Þór) þá ákvað ég að kýla á það. Það hlaut að hafa vera vilji Guðs að koma okkur í þennan skóla, að vísu er hann rándýr en hann verður að lokum þess virði. Ég og Þór eigum það sameiginlegt að hafa mikla reynslu við kvikmyndagerð og erum kvikmyndaáhugamenn af hæstu gráðu og þessi skóli er í okkar augum "frelsun". Ég veit hvað sumir munu segja þegar þeir lesa þetta, tveir aðrir guttar að reyna að "meika það" í kvikmyndabransanum. Ég er á þeirri skoðun að u.þ.b 95% af íslenskum kvikmyndagerðamönnum "sucka" og ég tel að u.þ.b 95% af íslenskum kvikmyndum "sucki" líka. Íslenski kvikmyndamarkaðurinn er eins og er, alveg djúpt sokkinn í skít, hver einasta ömurlega mynd er tilnefnd til Eddunar. Ástæðan er einfaldlega því það eru svo fáar íslenskar kvikmyndir, svo er oftast aðeins ein þeirra sem gæti mögulega vera talin "góð" að einhverju leiti. Svo eru nánast allar íslenskar kvikmyndir ekkert nema þunglyndi, af hverju reynir ekki einhver annar en hinn ógurlegi Hrafn Gunnlaugsson að gera flotta Víkingamynd? Fáir vita að Beowulf & Grendel er kláruð, sú mynd var tekin upp á Íslandi sumarið 2004 og þar er íslenskur leikstjóri að verki. Þá mynd vil ég sjá þar sem hún gæti vel verið ein af bestu íslensku myndum sem gerð hefur verið, vandamálið er að ekkert fyrirtæki vill gefa hana út þrátt fyrir nokkuð góða dóma. Ég held að tilgangurinn með þessari ræðu er að reyna segja að ef ég nái langt (og þú Þór), þá mun ég annaðhvort reyna að stækka íslenska kvikmyndabransanum eða flýja frá þessari eyju og koma mér til Evrópu/N-Ameríku eða hvert sem fætur mínir taka mig.

Ef þessi Íslenski kvikmyndaskóli mun standa fyrir sínu þá vonast ég til þess að fara til Þýskalands í sérsvið kvikmyndanáms en ef Guð stendur fyrir sínu þá mun ég ekki þurfa þess. Guð er mitt samnefni fyrir Karma, þrátt fyrir að ég sé ekki trúaður þá er Guð/karma yndislegt hugtak að nýta sér.

Sindri Gretarsson.

miðvikudagur, desember 28, 2005

Taegugki

Sindri Gretarsson 28. desember 2005 ****/****

Það er hægt að bera saman Taegugki við Saving Private Ryan, þær eru mjög svipaðar en í þetta skipti er ofbeldið mun meira og bandaríska föðurlandsástarvellan ekki til staðar. Sagan gerist í hinu gleymda Kóreustríði árið 1950, þar sem tveir bræður eru neyddir í Suður-kóreska herinn til þess að berjast á móti kommúnistunum í Norður-Kóreu. Hvorugir þeirra hafa neina afstöðu með neinni hlið, eina sem eldri bróðirinn vill er að koma litla bróður sínum heim til fjölskyldunnar. Hér sjást einhver alsvakalegustu stríðsatriði sem ég hef nokkurn tíman séð, þá aðallega í bardögum sem einbeita sér á handarslagsmálum og byssustungum. Taegukgi sýnir viðbjóð sem bandarískar kvikmyndir leyfa fólki ekki að sjá, ekki aðeins viðbjóð stríðsins heldur geðveikinni sem þar fylgir. Ímyndaðu þér að ríkistjórnin taki þig í burtu, kasti til þín riffli og segir þér að verja föðurlandið, þú færð enga sérstaka þjálfun né hjálp heldur aðeins félagsskap annarra sem eru í þinni sömu stöðu. Þar sem Taegugki einbeitir sér líka á einkastríð hermannana, ekki aðeins við sig sjálfa og hvor aðra heldur líka við hættuna á vatns og matarskorti, þá er örvæntingin ávallt í hámarki og stjórnleysi sem ríkir. Hvernig getur fólk verið svo heimskt til þess að fara í svona stríð við hvort annað? Ef stríðsmynd fær mann til þess að spurja þessa spurningu við sjálfan sig endurtekið þá ertu kominn með mikla ádeilu, enda er Taegugki alls ekki einhliða mynd, enginn er góður eða vondur, allir breytast í fasista og morðingja í þessari mynd. Taegugki, eða Brotherhood of War sem er enska heiti hennar er sú áhrifaríkasta ´antistríðsmynd´ sem ég hef séð og ég hvet alla til þess að sjá hana og skilja hve þýðingarmikil hún er, svo tel ég hana líka vera eina bestu mynd ársins 2004.

Sindri Gretarsson.

laugardagur, desember 17, 2005

Aeon Flux

Sindri Gretarsson 17. desember 2005 **1/2 af ****

Aeon Flux er ágætis dæmi um mynd sem kemur manni á óvart, treilerinn var þvílíkt rusl og allt benti til þess að þessi kvikmynd væri hræðileg. Þó svo að hasarinn hafi verið ómerkilegur þá er Aeon Flux nokkuð áhugaverður vísindaskáldskapur, sagan varð mun dýpri en ég bjóst við og það sást að reynt hafi verið að gera eitthvað af viti. Mér finnst þó myndin vera hálfgerð ´kvenkyns´ útgáfa af Equilibrium, rétt eins og ég hafði heyrt annars staðar um myndina. Aeon Flux gerist árið 2517 þegar eftirlifendur sjúkdóms sem eyddi 99% af jarðarbúum árið 2011 hafa safnast saman í eina borg sem kallast Bregna, Aeon (Charlize Theron) er útsendari andspyrnuhreyfingu gegn stjórnvalda Bregnu sem einkennast af einræði og fasisma. Hennar nýjasta verkefni leiðir að kjarna þess stjórnvalda sem hefur meiri leyndarmál en allir halda, myndin hefur meiri pólitík en hasar og þar sem hasarinn var frekar slappur í gæðum þá hefur allt annað meira vægi. Aeon Flux er langt frá því að vera neitt gífurlega merkileg en hún er ágæt sem hreinn vísindaskáldskapur.

Sindri Gretarsson.

miðvikudagur, desember 14, 2005

King Kong


Sindri Gretarsson 14. desember 2005 ***1/2 af ****

Ég get varla lýst King Kong sem kvikmynd, heldur frekar sem einhverskonar atburð í lífinu sem er erfitt að skilgreina eða túlka. Fyrsta áhorfið mitt á King Kong minnir mig á Return of the King, þetta er hrein ofhleðsla á öll skynfærin, svo mikið gerist sem ég hef aldrei séð áður og það var allt saman gersamlega geðbilað að öllu leyti. Fyrst var það ógurlegi Jar-Jar Binks, svo var það Gollum/Sméagol, nú er það Hinn glæsilega-geðveiki King Kong, hann á það skilið að vera kallaður hinn svalasti andskoti í tölvuheiminum, þrátt fyrir þessa vitund að hann væri tölvuteiknaður þá átti ég erfitt með að taka eftir því þó svo ég reyndi það. Auðvitað var það Andy Serkis sem lék Gollum/Sméagol sem leikur Kong með gömlu góðu ´motion-capture´ tækninni, án hans þá hefði Kong verið dauð brúða og þar sem þungamiðja myndarinnar er Kong sjálfur þá á hann Serkis mikið hrós skilið, svo kom Serkis einnig fram sem kokkurinn Lumpy, í þetta skipti er hlutverkið ekki tölvuteiknað heldur mjög kómískt og tækifæri fyrir Serkis að láta andlitið sitt sjást. Ég hafði mína efa um Jack Black sem leikur Carl Denham, kvikmyndagerðamanninn sem svindlar á framleiðendum sínum til þess að taka upp myndina sína á fornri eyju sem aðeins hann veit af. Sem betur fer þá heldur hann vel í hlutverkið sitt, hann hefur sína gríntakta en hann tekur vel í dramatísku hliðarnar sem gefa persónu hans þó nokkra dýpt. Ann Darrow sem er leikin af Naomi Watts er atvinnulaus leikari sem Denham tekur með sér í för sína til eyjunnar og meðal þess þá neyðir hann Jack Driscoll handritshöfund, leikinn af Adrien Brody með þeim. Brody stendur sig vel sem ólíklega hetja myndarinnar en hann er enginn píanisti þetta skiptið. Hún Ann er tekin föst af frumbúum eyjunnar og gefin sem fórn til Kong sem leiðir að hinu einkennilega sambandi milli Ann og Kong. Hvernig er hægt að sýna ástarsamband milli ljósku og gígantískum apa án þess að koma áhorfandanum til þess að hlægja? Útskýringin er líklegast einfaldlega frammistöður þeirra Andy Serkis og Naomi Watts, meðal þess þau mannlegu einkenni sem Kong sýnir gegnum myndina, sýnir áhorfandanum að Kong er ekki heimskt dýr heldur misskilin og ´góð´ vera. Mér sýnist það mögulega hafa verið mikið óhapp að missa Howard Shore því mér fannst James Newton Howard ekki alveg vera að sýna sitt besta í tónlistinni, kannski hafði hann ekki nógan tíma en hann hafði sínar góðu stundur en nokkrar slæmar þar á með. Lengdin er 180 mínútur en alls ekki öf löng að líða, mér fannst þó eins og pakkað hefði verið einum of mikið af persónusköpum gegnum fyrri helming myndarinnar en loks þegar Kong birtist eftir 70 mínútur (allir muna eftir Jaws reglunni?) þá koma einhver þau geðveikustu og sturluðustu atriði sem ég hef nokkurn tímann séð. Það eru einkenni sem Peter Jackson skilur eftir sig með kvikmyndirnar sínar og þegar það kemur að King Kong sem er hans draumaverkefni þá skilur hann mörg eftir sig og þau fengu mig til þess að hoppa af kæti. Það er nóg af dýralegu ofbeldi og óheppnu fólki sem kremst undir massa stærri vera og hver vill ekki sjá það? Mikið er verið að stíla sig við 1933 útgáfuna af King Kong, enda gerist kvikmyndin það sama ár, það sem Jackson reynir að gera er að ´uppfæra´ gömlu útgáfuna fyrir nýrri áhorfendur. Í stað þess að nota stop-motion eða einhvern gaur í apabúning þá vill Jackson nýta Weta tölvubrellurnar til þess að skapa ennþá stærri veröld kringum Kong en mögulegt hafði verið fyrir 72 árum síðan. King Kong frá 1933 var kvikmyndin sem hvatti Jackson í kvikmyndaheiminn og það sést vel í þessari nýju útgáfu hve mikla ástríðu hann hafði fyrir þessari sögu sögu, hann Jackson má vera vel stoltur af myndinni sinni. King Kong er kvikmyndaupplifun sem reynir á öll skynfærin sín og skilur mann eftir furðu lostinn, hún er þó ekki fullkomin, hún hefur sína litlu galla en þrátt fyrir það er hún ein besta myndin á árinu.

Sindri Gretarsson.

laugardagur, desember 10, 2005

The Ice Harvest

Sindri Gretarsson 10. desember 2005 ***/****

Loksins gerir Harold Ramis mynd sem er vel varið að sjá, hann hefur ekki gert mikið af viti síðan Analyze This. The Ice Harvest fjallar um Charlie Arglist (John Cusack) sem er lögmaður fyrir mafíuna sem fær það snilldarráð að ræna frá sínum eigin skjólstæðingum með hjálp Vic Cavanaugh (Billy Bob Thornton), Charlie hefur sín ýmisleg vandarmál, hann á tvö börn með konu sem yfirgaf hann með öðrum manni sem var góður vinur hans og þar með tók hún börnin hans sem eru lítið hrifin af honum lengur. Öll myndin gerist á einum degi og það er á aðfangadegi, sagan flæðir áfram mjög stöðugt og mjög hægt, nánast eins og myndin væri í réttum tíma. Húmorinn er mjög svartur og grófur þegar það kemur að honum, Cusack er eina alvarlega persónan í myndinni, Billy Bob Thornton og Oliver Platt koma með mest áberandi frammistöðurnar, þá sérstaklega hann Platt sem er blindfullur út alla myndina. Mér hefur alltaf fundist Cusack mjög einhæfur leikari og hann er ekkert miklu öðruvísi í Ice Harvest, aðeins þetta hlutverk hentaði honum mjög vel á hans einhæfa hátt. Annars voru það aðeins þeir Thornton og Platt sem stálu myndinni, Connie Nielsen var líka eftirminnanleg sem freistingin hans Charlie Arglist. Gæði myndarinnar liggja aðallega í handritinu og leikurunum því auðveldlega hefði verið hægt að gera Ice Harvest alveg hundleiðinlega mynd og ég væri alls ekki hissa ef mörgum fyndist hún leiðinleg, myndin er hæg, en mér fannst hún vera einmitt þess konar mynd sem þurfti hægan hraða því annars hefði atburðarrásin verið frekar ómerkileg. Besta mynd Ramis síðan Groundhog Day að mínu mati.

Sindri Gretarsson.

Greenstreet Hooligans

Sindri Gretarsson 10. desember 2005 ***/****

Greenstreet Hooligans er persónusaga Matt Buckners sem á sér stað í Englandi eftir brottvísun hans frá Harvard, þar kynnist hann frábrugðinni menningu og hann lærir hvað það er að vera hluti af fótboltafirmu með honum Pete sem stjórnar henni. Reynslan hans skapar nýja hlið á honum þar sem ofbeldi verður venja og orðspor skiptir mestu máli en það sem hann þarf líka að læra eru takmarkanir því áhættan bakvið þessar firmur geta valdið miklu veseni. Myndin byggist aðallega og er gersamlega í höndum leikaranna, handritið var mjög vel skrifað en ef leikararnir hefðu ekki staðið sig þá hefði öll sagan drepist. Sem betur fer þá fara þeir Elijah Wood og Charlie Hunnam vel með söguna, Hunnam var ég mest sáttur með sem Pete, Matt og Pete verða mjög ólíklegir vinir en þeir virkuðu vel saman. Lexi Alexander hefur staðið sig mjög vel, stíllinn var mjög hrár og raunverulegur og sama með ofbeldið, eini gallinn sem mér fannst trufla myndina voru nokkur augnablik af talsetningu sem þjónuðum litlum tilgangi, annars þá er Greenstreet Hooligans mjög vel heppnuð persónumynd um karakterörk Matt Buckner's og ég er mjög sáttur með hana.

Sindri Gretarsson

sunnudagur, desember 04, 2005

Kaldhæðni 101

Mikið magn af fólki í þessum heimi skilur ekki né kann að meta kaldhæðni, kringum þetta fólk er ég vondi kallinn þar sem ég er sjálfur gífurlega kalhæðinn. Vandamálið er að gegnum forrit eins og MSN þá getur kaldhæðni verið gífurlega misskilin þá sérstaklega milli þeirra sem þekkjast ekki. Ég hef líka brennt mig á því að fólk skapar grillur um mig eftir að ég svara á bloggsíðum með AUGLJÓSA kaldhæðni, ég endurtek, augljósa. Þótt ég sé talinn kaldhæðinn einstaklingur þá er ég ekki neitt miðað við MRinginn hann Þorstein sem ætti að skrifa bók um kaldhæðni, hann er Marquis de Sade kaldhæðnarinnar, hann er Sesar, soldáni og konungur alls sem tengist kaldhæðni.

Það sem þú (ef þú ert ný/nýr/nýtt þegar það kemur að kaldhæðni) þarft að læra er að fyrst og fremst að taka nákvæmlega engu alvarlega. Hér er dæmi um kaldhæðni gegnum MSN.

KALDHÆÐIN MANNESKJA: Ég hef lengi langað til þess að segja þér þetta, ég hef verið ástfanginn af þér í þrjú ár án þess að þora að segja þér það, mig dreymir um líkama þinn og þegar ég vakna er ég sveittur að innan og utan. Ég elska þig, þig og engan annan.

Hér hefur fórnalambið val til þess að velja úr, fórnalamb sem skilur ekki hvað er á seyði myndi segja.

FÓRNALAMBIÐ: WHAT!? Ojjjjjjj... (BLOKK).


Fórnalamb sem skilur hvað er á seyði myndi segja.

FÓRNALAMB: Ég elska mömmu þína, Mmmmmm...


Auðvitað eru til margvísleg svör en hér sést greinilegur munur á einstaklingum.

Kaldhæðnin var sköpuð af guðunum, hún er heilög og rétt að öllu leiti, ormar allstaðar eiga að hylla hana og stunda reglulega. Þið sem skiljið hana ekki ættuð að kasta ykkur sjálf á beitt húsgögn með hnakkan fremst, það er minn vilji og vilji guðanna og þeirra vilji er vilji allra, jafnvel yrra sem skilja ekki hina heilögu kaldhæðni.

Nú af engri ástæðu ætla ég að setja á síðuna ritgerð mína um Saladin, er ég ekki fyndinn?



SALADIN - Selahaddin Eyyübi - Salah ad-Din Yusuf Ibn Ayyub




Saladin heitir á kúrdísku Selahaddin Eyyubi og á arabísku kallast hann Salah ad-Din sem þýðir "Réttlæti trúarinnar". Saladin er nú þekktur sem söguleg ímynd á borð við Alexander Mikla, Hannibal Barca og Napóleon aðeins Saladin er ekki eins þekktur í nútímasamfélagi hins vestræna manns, mögulega því Saladin var múslimi og vestrænir menn þykja mjög fáfróðir um Miðausturlöndin. Saladin átti sín lykilhlutverk í krossferðunum á tólftu öld og hans endanlegi sigur á Jerúsalem árið 1187 festi nafn hans á sögubækurnar og með því varð hann að goðsögn um alla Evrópu á miðöldum. Það voru ekki múslimar eða Kúrdar sem geymdu minningar hans gegnum aldirnar heldur voru það Evrópumenn sem geymdu nafn hans því hann var þekktur meðal kristna manna sem réttlætur og virðingamikill höfðingi meðal múslima, frekar óvenjulegt að kristnir menn skulu hylla múslima svona mikið og þá meira en eigin landsmenn Saladins. En hverskonar maður var Saladin? Hvað gerði hann svona stórkostlegan? Eina leiðin til þess að finna svar við þessu er að rekja sögu hans og sjá hvað hann gerði á sínum tíma.

Hann fæddist í Tikrit hjá ánni Tígris annaðhvort árið 1137 eða 1138, (það er ekki víst hvort ár það var) hann var sendur ungur að aldri til Damaskus til þess að klára nám sitt og þar bjó hann í heilan áratug. Eftir að hann kláraði hernám sitt þá kom fljótlega fyrsta erfiða verk hans, að verja Egyptaland frá Latneska konungsdæmi Jerúsalems undir stjórn Almarics fyrsta. Þar sem stjórnvöld í Egyptalandi voru sífellt að breytast þá bjóst enginn við að Saladin myndi endast lengi, sérstaklega þar sem hann hafði enga stjórn á Egypska her sjítanna. Það var ekki fyrr en árið 1171 þegar kalífinn deyr að Saladin verður stjórnandi Egyptalands, hann bætti efnahaginn, endurskipulagði herinn og að lokum fór að einbeita sér á krossferðamönnum. Saladin verður að lokum soldáni Egyptalands árið 1174 þegar Nur ad-Din deyr og meðfylgjandi þá stækkaði veldi hans og súnnismi kom aftur til Egyptalands.

Þar sem Jerúsalem er undir stjórn kristna manna, þá er helsta markmið hans og flestra herkænskra múslima að taka aftur yfir borgina helgu. Meðan Nur ad-Din var á lífi þá hafði Saladin tvisvar þurft að flýja frá innrás sinni á Jerúsalem, strax eftir dauða Nur ad-Dins þá tekur Saladin her sinn til Damaskus og þar setti hann upp aðstöðu fyrir sjálfan sig. Venjulega þá sigraði Saladin allar krossferðaorrustur með einni undantekningu, Orrustan við Montisgard árið 1177, þá var hann sigraður af hinum unga arftaka Amalrics, Baldwin IV og Reynald de Chatillon. Eftir það var friður milli Saladins og Jerúsalem árið 1178 og þá gat Saladin endurbyggt her sinn að nýju og árið 1179 þá sigraði hann orrustu á móti krossferðamönnum við Jakobs Ford en þrátt fyrir það þá hættu krossferðamennirnir aldrei að ögra Saladin, sérstaklega Reynald de Chatillon. Hann var talinn alger skíthæll á sínum tíma, best væri að útskýra vinsæli hans í einni atburðarrás sem gerðist fyrir orrustuna við Montisgard. Árið 1160 var Reynald tekinn fastur af múslimum þegar hann var að nýðast á Sýrlensku og Armensku bóndafólki og hann var geymdur í Aleppo í 17 ár og enginn vildi borga fyrir lausn hans. Það var ekki fyrr en 1176 að borgað var fyrir lausn hans, upphæðin var magnþrungin og ég get rétt ímyndað mér hve sturlaður og blóðþyrstur hann Reynald hafi verið eftir meira en 16 ár í fangelsi, hatur hans á múslimum hafði þá líklega margfaldast. Eftir 1176 þá var það einmitt Reynald sem skapaði flestu vandræðin, sem bandamaður í orrustu reynist hann vel en hann var óstjórnanlegur og gat ekki hugsað rökrétt þegar það kom að múslimum.

Baldwin IV var með holdsveiki, aldrei var búist við að hann myndi endast lengi á hásætinu, í orrustunni við Montisgard var Baldwin aðeins sextán ára gamall. Saladin og Baldwin virtu hvorn annan mjög mikið og þeir áttu sinn sameiginlega óvin, hann Guy de Lusignan sem var giftur systur hans Baldwins. Guy de Lusignan var líkur Reynald, og það eina sem Guy vildi voru völdin yfir Jerúsalem og ef svo myndi gerast þá væri stríð yfirvofandi. Saladin var ekkert endilega að flýta sér við að ná Jerúsalem, þótt það væri stórt markmið þá held ég að hann vildi meta ástandið enn fremur. Það var friður milli þessa tveggja konungsríkja, krossferðamenn voru óvinir Saladins en ekki konungurinn, það var trúarfrelsi í Jerúsalem sem þýddi að engum var neitað inngöngu út af trú og allir gátu heimsótt helgu staði sína. Ein af helstu ástæðunum að Saladin var svo frægur í Evrópu á sínum tíma er einmitt út af hve tillitsamur og hve gáfaður höfðingi hann var og hve mikla virðingu hann bar ekki aðeins fyrir konunginum heldur líka kristni trú. Það er kannski einum of sagt hjá mér en ég tel Saladin hafa verið "spiritúalískur", meira en múslimi, eða allavega að miklum hluta. Það er allavega mín hugmynd af Saladin, það er mjög líklega aðeins ímyndunaraflið mitt en miðað við hvað ég hef lesið um hann þá finnst mér hann vera mjög óeðlileg manneskja fyrir sinn tíma.

Baldwin IV dó árið 1185 og ungi frændi hans tók við völdum en hann dó ári seinna af veikindum og þá tók móðir hans, systir Baldwins við völdin og var krýnd drottning og eiginmaður hennar hann Guy de Lusignan var krýndur kóngur. Reynald hélt áfram að ráðast á múslimska kaupmenn og Saladin krafðist þess að Reynald skilaði farm kaupmannana til baka en Reynald neitaði. Að lokum réðst Saladin á borgina Tiberias árið 1187 og af tillögun Reynalds þá tók Guy her sinn að leið til Tiberias. Þessi ákvörðun var sú alversta ákvörðun sem konungur í Jerúsalem hafði nokkurn tíman ákveðið, her Jerúsalems var gjörsigraður við Hattin í Galílei þann 4. júlí 1187 og með því nánast öll vörn og von Jerúalems í rústi komin. Ekki aðeins var her Guy de Lusignan alveg dauðþreyttur af vatnsskorti heldur var her Saladins stærri heldur betur útbúinn við aðstæður. Guy de Lusignan og meðfylgdarmenn eins og Raymond af Tripoli reyndu að flýja Saladin og finna veikar hliðar til þess að ráðast á en að lokum þá varð herinn umkringdur við Horn Hattins. Guy de Lusignan og Reynald de Chatillon voru teknir og færðir til Saladins og þar býður Saladin honum Guy bikar af vatni, hann drakk úr bikarnum en Reynald sem hafði ekki drukkið dögum saman grípur af honum bikarinn og drekkur. Samkvæmt lögum múslima er þetta bannað og Saladin grípur tækifærið og heggur höfuðið af Reynald. Auðvitað var þetta refsing fyrir skemmdarverk og vanvirðingu Reynalds öll þessi ár, þetta kallast nú grimmdarverk af hendi Saladins en það er ekki erfitt að setja sig í spor hans. Guy de Lusignan var sleppt úr varðhaldi árið 1188.

Balian frá Ibelin sem var einn af hásettustu höfðingjum konungsveldsins flúði frá Hattin áður en að orrustunni lauk og hann fékk leyfi frá Saladin til þess að komast aftur Jerúsalem til þess að sækja konu sína og fjölskyldu, aðeins ef hann myndi ekki vera lengur en einn dag. Hinsvegar þá voru íbúar Jerúsalem örvæntingafullir og þeir sannfærðu Balian til þess að hjálpa þeim til þess að verja borgina.

Ég komst að einni sérstakri netheimild með miðaldarheimild sem kallaðist "De Expugatione Terrae Sanctae per Saladinum" eða "The Capture of Jerusalem by Saladin". Sá kafli í stuttu máli: Hin heilaga borg Jerúsalem var umkringd villitrúmönnum þann 20. september 1187, kallað var á alla sem geta til þess að berjast fyrir borgina helgu. Örvar helltust niður eins og regndropar og Jerúsalem varðist vel í heila viku meðan her Saladins stefndi að Davíðsturni. Saladin vissi að þessar aðferðir hans voru ekki að virka og þá byrjaði hann að reyna finna veika bletti á borgarveggnum. Her Saladins stefndi að Davíðsturni og Hliði Damaskusar og dögum saman var barist þar til þann 26. september 1187 flutti Saladin her sinn að Olives og þar notaði Saladin risagrjótkastara sína til þess að veikja vegginn. Allskonar aðferðir voru notaðar til þess að verjast her Saladins, t.d var notaður grískur eldur, það er þegar varnarmenn hella sjóðheitri bleki/olíu á menn við veggin eða hliðið og kveikja í þeim. Þeir sem lenda í þessu eiga ekki möguleika til þess að lifa af. Her Saladins var gífurlega stór, margfalt stærri en varnarher Jerúsalems en hermenn Balians hættu ekki þótt það væru aðeins örfáir menn eftir. Her Saladins kastaði sínu risagrjóti á borgarveggina og hersveitirnar reyndu að klifra yfir veggin en enginn maður gat sigrað veggin. Í næstum tvær vikur var her Saladins að rembast við að taka yfir Jerúsalem þar til að Balian ákvað að semja við Saladin um örlög Jerúsalem. Lausnin var sú að Saladin leyfði öllum íbúum Jerúsalem að borga fyrir lausn sína en þeir sem myndu ekki borga yrðu seldir til þrælahalds. Þann annan október gaf Balian frá sér lyklunum að Davíðsturni og þann sama dag þurftu allir að borga fyrir lausn sína og þá varð Jerúsalem aftur undir stjórn múslima síðan 1099. Það að Saladin skuli gefa íbúum Jerúsalem tækifærið til þess að vera frjáls er gott dæmi um persónuleika hans, árið 1099 þegar kristnu krossferðamennirnir tóku yfir Jerúsalem þá slátruðu þeir öllum í borginni, hverjum einasta múslima, og nánast hverjum einasta manni af hvaða trú sem er. Það var líka þessi miskunarsemi hjá Saladin sem Evrópubúar þekktu hann fyrir, eins og ég sagði fyrr, mjög óeðlileg hegðun fyrir mann á þessum tíma. Þessi lýsing frá miðaldarritinu er þó alls ekki hlutlaust, skýrt er að heimildin sé sögð gegnum hlið kristna manna, sérstaklega þar sem Saladin er lýst sem kúgara.

Fall Jerúsalem árið 1187 hvatti Evrópubúa til þess að taka krossinn enn á ný sem leið að þriðju krossferðinni. Endurtaka Saladins á Jerúsalem er annaðhvort talin sem lok seinni krossferðarinnar eða byrjun þeirra þriðju, eða bara sem tíminn þar á milli. Meðal þeirra sem fóru í þessa nýju krossferð var Ríkharður Ljónshjarta sem reyndi nokkrum sinnum að taka aftur Jerúsalem en hvert skipti misheppnaðist, hann snúði aftur heim og dó árið 1199. Saladin dó sjálfur í mars árið 1193 í Damaskus rétt undir 60 ára gamall, rétt eftir að Ríkharður Ljónshjarta fór aftur heim. Orðspor hans í Evrópu eftir andlát var rosalegt, hann var frægur sem göfugur riddari og leiðtogi, sagðar voru sögur um hann í ljóðum alveg þar til í dag. Frægð Saladins var ekki svo mikil í miðausturlöndunum, það var ekki fyrr en Evrópubúar kynntu múslimum fyrir Saladin að frægð hans jókst aftur á því svæði. Saddam Hussein sem fæddist nálægt Tikrit hefur gengið svo langt að hann hefur verið kallaður nútíma Saladin.

Þessir atburðir sem ég hef skrifað um að ofan voru líka þungamiðja kvikmyndarinnar "Kingdom of Heaven" þar sem Orlando Bloom lék Balian, járnsmið sem fer með föður sínum til Jerúsalem og þar verður hann að verja borgina helgu frá Saladin. Þar er Sýrlenski leikarinn Ghassan Mossoud sem leikur Saladin, myndin á framsíðunni er mynd af leikaranum úr myndinni. Túlkunin á Saladin í myndinni var sögulega mjög rétt, hann var þar göfugur, gáfaður og umburðarlyndur höfðingi eins og sagan segir. Myndin sjálf er þó aðeins að hluta til sögulega sönn, persónan Balian er mun yngri og öðruvísi en sagan segir, Baldwin IV hinsvegar er fullkomlega gerður sem konungur Jerúsalem. Myndinni lýkur með samningum Balian og Saladin um örlög Jerúsalem, þar leyfir Saladin öllum íbúum Jerúsalem að fara aftur heim til landa sinna annað en í sögubækum þar sem íbúarnir verða að borga fyrir frelsi. Það er aðeins eitt dæmi um smá breytingar sem myndin leyfir sér, annars en myndin mjög fín og góð sýn á hvernig Saladin var líklegast í raun og veru.

Ég viðurkenni það sjálfur að ég vissi voða lítið um Saladin fyrr en ég sá Kingdom of Heaven, ég er mikill "kvikmyndaséní" og Saladin reyndist vera "svalasta" persónan í myndinni og þá fór ég að hugsa um hver þessi maður var í raun og veru. Það er mín venja að komast að sannleikum bakvið sögulegar kvikmyndir, það er ekkert verra en að heyra í krökkum tala um sögu sem þeir sáu í kvikmyndum eins og sannleika. Mitt persónulega álit á Saladin er mjög flókið, ég sé hann fyrir mig sem skeggjaðan, hljóðlátan, eldri mann sem veit hvað hann er að gera. Leiðtoga sem hefur hæfnina og "karisma", maður sem ég sjálfur myndi fylgja ef ég væri á hans hlið. Ég vona aðeins að þessi kvikmynd hafi skemmt fyrir, ég sé hluti fyrir mér mjög kvikmyndalega séð, en ég ætlast alls ekki til þess að einhæfa álit mitt á Saladin, hann er ekki gallalaus manneskja. Það reyndist erfitt að finna mikið af upplýsingum um Saladin á netinu, flestar síður voru aðeins með stuttar greinar um hann, Wikipedia reyndist besta síðan í upplýsingaleit á netinu. Ég las þó af einni kristni síðu eina umræðu um Saladin, þar sá ég greinilegan mun á álitum. Margir hunsuðu það að Saladin sé talinn merkismenni og telja hann frekar vera villitrúamann af verstu gráðu, en alls ekki allir. Sögufræðingar eru þó sammála að Saladin sé einn merkilegasti maður í mannkynssögunni, ástæðan fyrir þessu er í flestum sögulegum ritum sem til eru um Saladin, ég fann nánast ekkert um hann sem efar þetta álit. Saladin var örugglega líkt og langflestir Múslimar á þessu tímabili til þess að byrja með, með svipaðar hugsjónir og álit og svipaða lífshætti. En með tímanum og reynslu hans í orrustum þá held ég að hann hafi öðlast mikla visku og um sannleika bakvið heilög stríð "Jihad". Það að hann skuli sýna svona vítt umburðarlyndi hefur margt að segja um persónuleika mannsins, það sem gerði hann svo stórkostlegan líkt og Alexander Mikla sem sýndi gífurlegt umburðalyndi gagnvart annarra menninga og trúa hvar sem er í heiminum. Saladin var maður sem var aðeins mennsku, við í framtíðinni höfum skapað okkur ímynd sem er Saladin, gert hann "rómantískan" og meiri mann en flestir menn eru. Það má þó ekki gleyma að ekki allar sögulegar heimildir þurfa endilega að vera sannar. Það er aðeins ein aðgerð sem við getum þekkt hann Saladin og það er í gegnum þessar heimildir, sannar, ósannar eða sannar að vissu leiti. Þrátt fyrir öll þessi milljarða manns sem hafa lifað á þessari Jörð þá er nafn Saladins eitt þeirra nafna sem stendur uppúr, það hlýtur að vera ástæða út af þessu.

Sindri Gretarsson.

föstudagur, desember 02, 2005

Saw II

Sindri Gretarsson 2. desember 2005 *1/2 af ****

Þegar ég frétti að Saw II væri í framleiðslu þá efaði ég samstundis um möguleika myndarinnar, ég einhvern vegin gat ekki hugsað mér framhald af Saw (sem ég fílaði töluvert) sem gæti orðið gott. Auðvitað þá gef ég myndinni tækifæri eins og ég gerði, það verður að segjast að Saw II er mjög gott dæmi um framhaldsflopp. Spennan í myndinni var engin, persónurnar alveg dauðar og mjög dæmigerðar, handritið ómerkilegt, MTv stíllinn sem var ofnotaður eyðilagði mörg atriði. Talandi um tilgangslausa notkun á MTv klippingu, Saw II ofgerði þetta og ekki eitt einasta atvik virkaði sem hluti af senu. Það komu fyrir sömu aðferðir í Saw en þá mun færri og mun betur útfærð, hér kemur það á um tveggja mínútna fresti eða oftar. Reynt er gera eitthvað nýtt með Saw II sem skilur hana frá fyrri myndinni, margar hugmyndir reynast góðar og hafa sína möguleika, en öll þessi augnablik sem skipta máli eru eyðilögð gegnum ráðandi MTv stílinn, eins og leikstjórinn væri annaðhvort ástfangin af þessum stíl eða vildi laða að sér meira af unglingum. Svo er mikið reynt að tengja sig við fyrri myndina, skapa sögufléttur og flækjur sem allar sökkva niður vaskinn, hvort sem það sé ótrúverðleikinn eða hreinlega lélega gert eða hvað sem er þá er lítið sem ekkert sem kveikir áhugann. Aðalvandinn er að það vantaði alla spennuna, mér var alveg sama um hvernig sögunni myndi ljúka, líkt og að lesa bók sem hefur ekkert upp á bjóða þá er Saw II alveg rosalega ómerkileg. Ég fékk enga grimmdarlega sælutilfinningu við að sjá annað fólk deyja á hryllilegan hátt né neina samúð með fórnalömbunum, ég gat alveg eins verið að horfa á Glæstar Vonir. Mér leiddist þó ekki við að horfa á myndina, hún hafði ágætis opnunarsenu, en því miður þá er Saw II alls ekkert merkilegt né þess virði að sjá, það er þó mitt álit.

Sindri Gretarsson.