mánudagur, júlí 24, 2006

King Arthur Director's Cut

Sindri Gretarsson 24. júlí 2006 ***/****

Ég ætla að byrja á því að segja, að kvikmyndir sem fjalla um hetjur á fornum tímum drepandi mann og annan er mitt persónulega fetish þegar það kemur að kvikmyndum, t.d þá er Gladiator ein uppáhalds myndin mín. Svo ef að kvikmynd hefur þetta efni þá er mjög einfalt að gleðjast mér, svo það að ég skuli segjast fíla þessa mynd er nánast eingöngu af þessari ástæðu. Svona sögur, sama hve rangar þær gætu verið sögulega séð koma mér í einhverskonar endorfín tripp sem örva ímyndunaraflið mitt að einhverju furðulegu stigi sem kemur það að verkum að ég hunsa eða tek ekki eftir augljósum göllum. King Arthur Director's Cut er ekki mikið öðruvísi heldur en útgáfan sem sást í bíó, ég sá aðeins þá útgáfu einu sinni í bíó og fílaði hana alveg sæmilega, eini munurinn sem ég sé er að einni senu hefur verið sleppt og fáeinum sett í staðinn. Besta breytingin hinsvegar er að meira af blóði og ofbeldi sést í þessari útgáfu, enda er þessi útgáfa rated R í staðinn fyrir PG-13 eins og bíóútgáfan. Clive Owen er gífurlega mistækur sem Arthur, hann á sínar stundir en oftast þá er hann frekar stirrður í hlutverkinu. Fyrir utan Arthur þá eru riddararnir hans mjög vel skapaðir, þar sér maður athyglisverðar og skemmtilegar persónur og það er þaðan þar sem að myndin greip athyglina mína. Þá aðallega danski leikarinn Mads Mikkelsen sem nær einhvern veginn að skapa ofursvala persónu þrátt fyrir að hafa nánast engar línur í allri myndinni. Án þessara aukapersóna hefði þetta aðeins verið tóm mynd en sem betur fer þá heillaðist ég að aukapersónunum sem langflestar fengu nokkuð mikinn tíma á skjánum. Keira Knightley, þó alveg ásættanleg, er ekki hægt að taka alvarlega sem stríðsprinsessu í þröngu leðurbíkini að berjast við risavaxna Saxverja, ég hef ekki hugmynd hvaðan handritshöfundurnir fengu þá hugmynd en hún hljómar eins og skemmtilegt grín. Miðað við upprunalegu væntingarnar mínar (sem voru mjög láar) þá kom King Arthur mér á óvart, í mínum augum þá er hún einfaldlega góð skemmtun, og ef það er val á milli bíóútgáfunnar eða director's cut þá er það án efa director's cut, þá aðallega útaf ofbeldinu og blóðinu. Ég meina, hver vill ekki sjá meira blóð og ofbeldi? Þetta er kvikmynd sem ég get notið þess að horfa á, ég veit að fáir eru sammála mér en ég gef þessari director's cut þrjár stjörnur, ég vona að lesandinn skilur ástæðurnar mínar því annars þarf ég að æfa mig betur í tjáningu minni.

Assalaamu Alaikum.

Sindri Gretarsson.

Alexander Director's Cut

Sindri Gretarsson 24. júlí 2006 ***/****

Það er orðin týska í kvikmyndaheiminum fyrir leikstjóra að skapa sínar eigin útgáfur af myndunum sínum, yfirleitt er það gott, stundum lítill munur, sjaldan er það slæmt. Sumir leikstjórar lenda einfaldlega í slæmum erjum við stúdíóið og framleiðendurnar, aðrir gera einfaldlega mistök (t.d Kingdom of Heaven). Hvaða ástæða sem það er þá eru leikstjóraútgáfurnar yfirleitt alltaf betri að einhverju leiti og Alexander director's cut er það einnig að mínu mati. Miðað við hvað Oliver Stone segir frá á DVD disknum þá er leikstjóraútgáfan í raun sú sem kom í bíó og þessi útgáfa sé í raun eins og myndin átti að vera upprunalega. Mér fannst bíóútgáfan fín, alltof löng þó og hún átti erfitt með að komast að niðurstöðu, þessi útgáfa hefur sömu vandamál en undirstrikar hinsvegar söguþráðinn mun þéttar. Í stað þess að vera lengri þá er hún styttri aðeins Stone hefur tekið út mikið efni og sett annað í staðinn. Munurinn hinsvegar er nánast aðeins í uppbyggingunni, sagan gerist í víxlaðri tímaröð, á meðan Alexander er að taka yfir Asíu þá eru atriði inn á milli gagnvart fortíð hans. Kosturinn bakvið þessa breytingu er að myndin heldur athyglinni mun lengur en bíóútgáfan sem átti það til að festa sig í óendanlegum samtölum sem voru öll frekar ofleikin og tilgerðarleg. Þó svo að það gerist í þessari útgáfu þá eru áhrifin mun vægari hérna. Aðalvandinn sem Alexander hefur er aðalleikarinn, Colin Farrell er góður leikari en alls ekki réttur fyrir Alexander, engin útgáfa getur bjargað því. Mest aðlandi partur leiksins og myndarinnar er Val Kilmer, sá leikari hefur það í sér að geta bjargað heilum kvikmyndum eða allavega verið besti kosturinn bakvið þær. Hann sýnir frábæran leik sem Filippus pabbi hans Alexander og undir lokin þá stendur hann uppúr sem minnugasti karakterinn. Fyrir Oliver Stone þá er Alexander Mikli mesta hetja allra tíma, svo ég skil vel af hverju hann vildi gera mynd um hann, enda hafði hann verið að undirbúa þessa mynd í fimmtán ár áður en hann kláraði hana. En eitthvað fór úrskeiðis, líklegast handritið sem er frekar þurrt í heild sinni, mögulega var það aðalleikarinn sem var ekki nógu sannfærandi. Þrátt fyrir að myndin skapar gífurlegan umheim kringum sig og er rosalega falleg þá er nánast engin spenna kringum persónurnar og lítill hvati sem heldur athyglinni. Þetta eru vandamál sem báðar útgáfurnar hafa, aðeins þessi nýja útgáfa hefur vægari áhrif. Margir munu hugsa af hverju ég nenni einu sinni að pæla í þessu, ég fíla Oliver Stone, jafnvel þótt hann geri ekki góða mynd. Mér finnst Alexander director's cut eins og fyrri útgáfan, vel fín, en alls ekkert meira en það. Ég gef þessari útgáfu þrjár stjörnur naumlega, aðallega til þess að undirstrika að mér finnst þessi útgáfa betri en sú fyrri sem ég gaf tvær og hálfa. Í eðli sínu er gæðamunurinn lítill en ég hvet hvern sem hefur áhuga að líta á þetta director's cut, ef ekki til þess að horfa á myndina þá til þess að hlusta hvað Oliver Stone hefur að segja því hann hefur alltaf eitthvað athyglisvert að segja frá.

Assalaamu Alaikum.

Sindri Gretarsson.

fimmtudagur, júlí 20, 2006

Chaplin

Sindri Gretarsson 20. júlí 2006 ***1/2 af ****

Chaplin reynist vera gleymd kvikmynd, ég þekki nánast enga sem hafa séð hana né vita af henni og þeir sem eldri eru muna varla eftir henni. Það muna allir hinsvegar eftir Chaplin sjálfum, án þess að bulla og blaðra um hið augljósa þá held ég að allir geta verið sammála um snilldina sem Chaplin skapaði og skildi eftir sig. Robert Downey Jr. skilur eftir sig sína eigin mestu snilld sem Chaplin, og er það án efa hans besta hlutverk. Hann nær töktunum, skapgerðinni og mest af öllu húmornum jafn vel og Chaplin sjálfur, hann leikur einnig Chaplin gallalaust á eldri árum þó svo hann hafi varla verið 27 ára við tökur. Fjallað er um líf Chaplins alveg frá 1895 þar til 1973 aðalega um hans villta líferni á þessu tímabili, mögulega þá er fjallað meira um slæmu/óeðlilegri hliðar lífs hans heldur en góðu/eðlilegri. T.d mörgu samböndin sem hann hafði með stelpum undir lögaldri og öll hjónaböndin hans sem flest enduðu í ringulreið. Sjálfum finnst mér lítið slæmt um það sem var sýnt, kvikmyndin gaf mjög athyglisverða sýn á líf hans og sérstaklega tímabilinu sem hann lifði. Að sjá Chaplin kynnast kvikmyndaheiminum við byrjun tuttugustu aldarinnar lætur mig alltaf vilja að vera í hans sporum, enda er Hollywoodland í Chaplin sýnt eins og hið besta Eden. Fyrir utan Robert Downey Jr. þá er andskoti stórt aukaleikaralið til þess að hjálpa til, Kevin Kline, Dan Aykroyd, Kevin Dunn, Diane Lane, James Woods, Marisa Tomei, Milla Jovovich og Geraldine Chaplin, dóttir Charles Chaplin. Alveg eins og Gandhi þá er Chaplin mjög vel gerð biopic eftir hann Richard Attenborough, mjög litrík og áhugaverð kvikmynd um manneskju sem skapaði ódauðlegar goðsagnir, sem er mikið magn að bera fyrir leikara eins og Robert Downey Jr. En hann tók það allt og meira, og átti einnig óskarinn skilið sem hann fékk ekki árið 1993. Ég vona að þessi mynd fái að lifa lengur í minningu manna, frammistaða hans Downey er alveg nóg til þess að lofa góðu fyrir alla sem sjá hana.

Assalaamu Alaikum.

Sindri Gretarsson.

mánudagur, júlí 17, 2006

Heat

Sindri Gretarsson 17. júlí 2006 ***1/2 af ****

Hvaða kvikmyndaðdáðandi sem ég þekki segir það sama, ´Heat er geðveik!´. Sem er satt, Heat er kolbrjáluð, grilluð, ofurheit og gersamlega djúpsteikt að gæðum, ég afsaka ofnotkun mína á lýsingarorðum tengd hita. Ein af ástæðunum bakvið þessa fullyrðingu er sú að Al Pacino og Robert DeNiro loksins deila senum saman í myndinni sem andstæður í glæpaheimi Los Angeles sem Vincent Hanna og Neil McCauley, Pacino löggan og DeNiro bófinn. Sú skilgreining er hinsvegar mjög takmörkuð miðað við flækjurnar sem Michael Mann skapar milli ´góðra og vonda manna´. Samkvæmt Mann sjálfum þá reynir hann að skapa þrívíddina allstaðar í myndunum sínum, sama hvaða staður eða persóna gæti verið til staðar og sama hve lítið eða lengi sú persóna eða sá staður kemur fyrir. Þetta gagnast myndirnar hans mikið á þar sem þær flest allar gerast í nútímanum og í borgarlífinu, án þess þá væri umhverfið líklegast dautt, án þess að geta tengt það við fólkið sem býr þar, hljómar rökrétt. Helsti tilgangurinn sem Heat þjónar, er sálfræðin bakvið glæpalífið, myndin er skrifuð sem sálfræðidrama með óneitanlega geðveikum hasarsenum inn á milli. Stíllinn þjónaði auðvitað sínum tilgangi, en án þessari sálfræði þá hefði myndin fallið niður í miðjumoð. Fyrir utan sálfræðina þá er eitt það sem gerði Heat svo eftirminnanlega voru byssuhljóðin í klassíska bankaráninu, ekki endilega ránið sjálft sem var þó geðveikt heldur þessi ótrúlega raunverulegu byssuhljóð sem sprengdu á manni eyrun, án þeirra þá get ég varla ímyndað mér hvernig senan hefði verið, og þá hvaða sena í myndinni sem hafði byssuskot. Al Pacino og Robert DeNiro gera myndina ódauðlega, þetta eru tveir risar að stangast saman sem allir þekkja, líkt og að horfa á heimsmeistarakeppni í boxleik eða eitthvað svipað. Ég hef líka aldrei séð neina manneskju reyna leika dauða/hálfdauða manneskju jafnvel og hún Natalie Portman, þó svo hún hafi varla verið fjórtán ára gömul á þessum tíma þá var hún áberandi hluti af sögunni, sama með Diane Venora gagnvart Al Pacino þá. Val Kilmer, sem er alltaf góður að mínu mati er það líka í Heat sem frekar daufur karakter en þrátt fyrir það mjög mikilvægan, sérstaklega í garð Robert DeNiro's, sama með Amy Brenneman. Svona gengur það, koll af kolli, eins og vefur, hver einasta manneskja og persóna leiðir að lokum til Pacino og DeNiro og það er aðeins rökrétt að enda myndina á þeim tveimum. Aðeins einn þeirra kemur lífs af og aðeins þá geturu ákveðið á hvorri hlið þú stendur, sjálfur er ég á báðum áttum enda er persónusköpunin einfaldlega alltof góð hjá hvortveggja karakterum. Heat stendur uppi að mínu mati sem ein af bestu myndum tíunda áratugsins, og ein besta mynd Michael Mann's, og ein besta glæpamynd allra tíma.

Assalaamu Alaikum.

Sindri Gretarsson.

sunnudagur, júlí 02, 2006

Firefly

Sindri Gretarsson 2. júlí 2006 ***1/2 af ****

Firefly er eitt besta dæmi um þáttamorð sem hægt er að finna, eftir aðeins fjórtán þætti þá ákvað Fox að klippa á þráðinn og hætta með Firefly út af, sagt er, ekki nógu miklu áhorfi. Lokaþátturinn endar út í bláinn, það er greinilegt að það var hætt við framleiðslu mjög snöggt því það eru engin lok til staðar. Þar kemur kvikmyndin Serenity til staðar nokkrum árum seinna til þess að binda þræðina aftur saman. Miðað við góðu dómana sem bæði þættirnir og kvikmyndin fær þá þarf ennþá að berjast fyrir því að halda Firefly áfram, því miður þá gekk myndinni ekkert sérstaklega vel í bíóhúsum sem er nánast búið að útiloka möguleikana fyrir framhaldsmynd. Það sem er einstakt við Firefly er að hver einasti þáttur er frábær, með flestum þáttaseríum þá eru nokkrir frábærir þættir en þó nokkrir ekkert merkilegir. Ég er yfirleitt ekkert mikið fyrir Joss Whedon en hann fær mitt hrós fyrir Firefly, það sem heldur Firefly uppi eru persónurnar, það eru engar rosalegar tæknibrellur eða megahasar til staðar, nánast einungis persónurnar að ruglast í hvort öðru. Joss Whedon kann svo sannarlega að skrifa handrit, þar sem hann nær svo auðveldlega að halda manni háðum öllum fjórtán þáttunum, allavega lenti ég í því að horfa á alla þættina í röð án pásu. Sem betur fer þá hafa þessir þættir öðlast stóran fan-base og kult frægð en ég skil samt ekki þar sem þessir þættir hafa einn stærsta fan-base í heimi að ekki sé hægt að endurvekja þá eða allavega búa til framhald af kvikmyndinni sem jafnaðist vel við þættina í gæðum. Mögulega er Firefly einfaldlega með slæmt karma og að deyja fyrir sinn tíma eru örlög þessara þátta, vond örlög fyrir svona góða þætti.

Assalaamu Alaikum.

Sindri Gretarsson.