miðvikudagur, febrúar 14, 2007

Perfume: The Story of a Murderer

Sindri Gretarsson 14. febrúar 2007 ***1/2 af ****

Ég held að þessi mynd sé einhver sú siðbrenglaðasta kvikmynd sem ég hef séð lengi, en einhvern veginn þá náði hún að fela því fyrir mér. Öll myndin er byggð á hugarheimi morðingja sem finnst ekkert sjálfsagðara heldur en að gera það sem honum sýnist til þess að fá það sem hann vill, ég fór að venjast siðleysinu eftir aðeins fáeinar mínútur og það var ekki fyrr en tveimum klukkutímum inn í myndina þar sem ég fattaði það og á þeim punkti var ég orðinn það tengdur morðingjanum að ég gat ekki litið á hann með illum augum. Eins og nafnið bendir til þá fjallar myndin mikið um ilmvatn, aðalpersóna myndarinnar Jean-Babtiste Grenouille (Ben Wishaw) var fædd með þann eiginleika að geta þekkt lyktina af hverju sem er, en Babtiste var alinn upp á munaðaleysingjahæli og var mjög illa uppalinn og á þar af leiðandi erfitt með að skilja annað mannfólk. Lykt er það eina sem gefur honum lífsvilja og þegar hann finnur mest seðjandi lykt sem hann hefur lyktað þá gengur hann of langt til þess að eignast hana. Karakteruppbyggingin hans Babtiste var það vel uppsett að þegar að kom að þeirri stundu að ég átti að hata hann þá fór ég að finna til með honum. Það er örugglega rangt af mér að kalla þessa mynd siðlausa eða siðbrenglaða, en allavega þá var mínu siðferði rifið í sundur og kastað í einhvern ofn. Hljómar eins og spaug en ég er að reyna orða niðurstöður myndarinnar eins vel og ég upplifði þær. Öll kvikmyndagerðin sjálf var stórkostleg, myndatakan þá sérstaklega en allir leikararnir voru góðir í sínum hlutverkum og Ben Wishaw passaði nákvæmlega sem Babtiste. Perfume: The Story of a Murderer er nýtt fyrirbæri í kvikmyndaheiminum, en á sama tíma þá virðast margir ekki fíla myndina, einhvern veginn held ég að þetta tvennt sé tengt. Öll hnakkamenning Íslands má sleppa þessari mynd þar sem hún er ekki aðeins mjög löng heldur einnig of djúp fyrir þannig mannskap. Hinsvegar þá er aðalgalli myndarinnar í lengdinni, sagan missti fókusinn á pörtum en náði þó alltaf að koma sér aftur á braut. Ég tel Perfume sem eina af betri myndum ársins 2006, en ég get ekki lofað að lesandinn muni fíla myndina jafn mikið og ég gerði.


Sindri Gretarsson.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Frábær mynd.


Ps: Gagnrýndu Pan's labyrinth.

Nafnlaus sagði...

NEI