Sindri Gretarsson 5. maí 2007 **1/2 af ****
Það sem Spider Man 3 skortir fyrst og fremst eru takmörk, í fyrstu myndinni vorum við með Norman Osborn/Green Goblin sem illmennið. Í annari myndinni var það Otto Octavius/Doctor Octopus en í Spider Man 3 höfum við ekki aðeins Harry Osborn/New Goblin (son Green Goblins) heldur einnig Flint Marko/Sandman og Eddie Brock/Venom, þrjú einhver stærstu illmennin í Marvel myndasögunum. Fyrir utan illmennin þá eru öll plottin sambandi við Mary Jane, Aunt Mae og Harry Osborn ennþá fullgangandi og Parker er að gangast undir enn fleiri persónuvandamál gagnvart sitt tvöfalda líferni sem Parker/ Spiderman. Það er einfaldlega alltof mikið að gerast í þessari einu kvikmynd og myndinni blæðir mjög augljóslega útaf því, það eru þó illmennin sem blæða mest og þá sérstaklega Venom sem fær nánast engan skjátíma til þess að geta sýnt möguleika sína. Það sem angraði mig mest og mun angra marga er hve öll atburðarrásin hentaði myndinni svo gífurlega, ég sé vel fyrir mér handritshöfundinn hoppa af kæti um hve mikill snillingur hann sé fyrir að hafa þjappað saman allri myndinni niður í nokkra daga þar sem allur heimurinn fer til andskotans á eins ótrúverðugan hátt sem hægt er að ímynda sér. Ég veit ekki hvað fólk var að hugsa þegar það gerði þessa mynd en sama hvort að myndin sé byggð á myndasögu eða ekki þá er það nauðsynlegt að reyna halda í einhverskonar trúverðleika bakvið atburðarrásina jafnvel þó að menn séu að hoppa milli bygginga eða breyta sér í sandkorn. Ég efa ég hafi nokkurn tíman séð jafn margar Deus Ex Machinur og í Spider Man 3, í lokin var ég hlægjandi og þá meina ég ekki með myndinni heldur að henni. Endinn er einnig ein stór leðja af klisju, hún var það stór að hún gleypti mig gersamlega og saug útúr mér alla orkuna, það eina sem eftir var af mér var einn stór hneykslissvipur. Spider Man 3 fer svo illa með persónurnar sínar og möguleika (þá aðallega í lokin) að ég get ekki ímyndað hvernig það sé hægt að halda áfram með þessa kvikmyndaseríu. Það sem myndin hefur á móti öllu þessu er að hún er mjög skemmtileg (einnig var Sandman svalur), en hún hrapar svakalega í gæðum miðað við Spider Man 2 sem mér finnst vera besta af þríleiknum, eina sem Spider Man 3 gæti boðið uppá betur eru kannski aðeins betri tölvubrellur. Spider Man 3 hafði allt mögulegt til þess að gera stórkostlega kvikmynd og ekki gleyma sínu gígantísku fjármagni, en hún tekur öllu alltof sjálfsagt og að lokum missir sig alveg í algeru rugli. Ég held ég sé að gefa myndinni of háa stjörnugjöf, tvær og hálf stjarna er merki um mynd sem er sæmileg og Spider Man 3 er ekkert meira en það, því miður.
Sindri Gretarsson.
laugardagur, maí 05, 2007
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Kvikmynd þessi er rusl.
Skrifa ummæli