Sindri Gretarsson 28. desember 2006 ***1/2 af ****
Hvað gerist þegar mannkynið getur ekki lengur fjölgað sér? Það er spurning sem Children of Men veltir fyrir sér en hún bætir einnig við, hvað ef skyndilega hið ótrúlega gerist? Hvað ef það er aðeins ein kona á allri Jörðinni sem er ófrísk? Árið er 2027, aðalpersónan er venjulegur maður (Clive Owen), hann fær það verk að þurfa að vernda þessa ófríska konu og koma henni til hjálpar til hinna dularfullu Human Project stofnun sem á víst að vera til þess að finna lausn á vandamáli mannkyns. Children of Men hefur sannað fyrir mér hve svakalega góður leikstjóri Alfonso Cuarón er, hann á fullkomlega verðskuldaðan óskar fyrir bestu leikstjórn hérna. Hér skapast nýtt stig af raunverulisma í kvikmyndagerð, hráa myndatakan sem nær oft að taka margra mínútna tökur af heiminum rífa sig í tætlur, þá meina ég í löngum tökum án neinna klippinga og það var ekkert annað en svakaleg upplifun. Atburðarrásin heldur sér trúverðugri og fellur ekki í neinar slæmar Hollywood klisjur, persónurnar eru einnig stórgallaðar sem gera þær ennþá raunverulegri, skemmtilegt að sjá Michael Caine sem gamlan maríjúana reykjandi hippa. Children of Men er ein merkilegasta ´heimsenda´ hugmynd sem sést hefur lengi, en ekki gleyma að hún er byggð á samnefndri bók eftir P.D James, en mér sýnist að myndin hafi breytt rækilega til í sögunni. Ég var límdur við bíósætið þar sem sagan var ekki að gefa mér tækifæri til þess að losna, hún er spennandi, hröð & hrá og oftar en ekki kemur vel á óvart. Í lokin er Children of Men ekki aðeins fjárans góður framtíðarþryllir, heldur ádeila á hugsunarhátt manna um hvernig við förum með hvort annað og leyfum örvæntingunni að stjórna okkur í vonlausri framtíð. Það er reyndar fátt sem myndin deilir ekki í, gefið er í skyn margt úr sögu okkar að eiga sér stað enn og aftur, jafnvel gefið sterkt í skyn til útrýmingabúðir Nasista. Myndin gæti talist minnismerki um hvað gæti gerst og hvað við eigum ekki að gera ef það kæmi að því, ef það er eitthvað sem mannfólk á bágt með þá er það að læra af fyrri mistökum, mér fannst myndin vekja upp margar merkingafullar og áhrifaríkar spurningar um mannkynið í heild sinni. Children of Men stendur uppi þetta árið sem ein af betri myndum 2006, gæti mögulega talist sú besta.
"MIRIAM: As the sound of the playgrounds faded, the despair set in. Very odd, what happens in a world without children's voices."
Sindri Gretarsson.
fimmtudagur, desember 28, 2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli