sunnudagur, ágúst 20, 2006

Miami Vice

Sindri Gretarsson 20. ágúst 2006 ***/****

Miami Vice er gífurlega svöl mynd, byrjunin er hörkuleg og hröð, engum tíma er sóað í andskotans byrjunar kreditlista sem ég hef nokkuð óbeit af, þessari hörku er haldið í þó nokkurn tíma, en alls ekki út alla myndina. Það sést við miðjuna að Michael Mann hafði nánast ekki hugmynd hvað ætti að gerast eftir helming, sem er galli sem handritsskrif á að hafa lagfært. Colin Farrell hefur að mínu mati staðfest sjálfan sig sem nokkuð góðan og svalan leikara, sérstaklega eftir The New World. Hann og Jamie Foxx virka vel saman, persónusköpunin er alls ekki flókin milli þeirra en sem ´shootem-up´ teymi þá sannast þeir flottir saman. Þegar Michael Mann gerir hasarsenur, þá gerir hann virkilega hasarsenur, enginn nær að skapa eins flott byssuhljóð og þessi maður fyrir kvikmyndir og allur hasarinn í Miami Vice var frábær. Seinni helmingurinn tekur allt sem fyrri helmingurinn kynnti til sögunnar og dregur það eins lengi og langt og hægt er, þar verður atburðarrásin frekar þreytt og augljóslega óskipulögð. Svo það augljósasta var skortur á hæfanlegum endi, margar kvikmyndin eiga það til að enda án þess að skilja neitt eftir sig, með Miami Vice þá fannst mér eins og Mann hafi gleymt að taka upp endinn. Ég verð að vera sammála því sem gagnrýnendur segja, Miami Vice er ofurflott mynd, en þurfti meiri undirbúning. Ég fílaði Farrell og Foxx, mér fannst hasarinn frábær og sagan virkaði vel við fyrri hlutann en við lokin þá er eins og allur krafturinn sé löngu eyddur. Ég hef aldrei séð Miami Vice þættina, en ég er nokkuð viss um að þessi mynd sé betri þar sem þættirnir eru víst hallærislegir 80's poprugl. Miami Vice er mjög fín mynd, ekki eins góðar og flestar Michael Mann myndir en samt góð.

Assalaamu Alaikum.

Sindri Gretarsson.

Engin ummæli: