þriðjudagur, júní 06, 2006

The Omen (2006)

Sindri Gretarsson 06.06.2006 **/****

Á þessum Sataníska degi í þessum Sataníska mánuði á þessu Satanísku ári berst fram í kaldhæðnisskyni kvikmynd sem kallar sig The Omen 666. Miðað við þennan einstaka útgáfudag og yfirdrifið hype þá stendur Omen ekki undir sínum Satanísku eftirvæntingum. Er ég kannski að ofnota orðið Satanískt? Ein leið til þess að lýsa þessari endurgerð af Omen frá 1976 kemur frá erlendri umfjöllun sem ég las af annarri mynd: It's a Dud. Sama hve gaman sé af henni á tímum þá er Omen einfaldlega ekki góður þryllir, né spennumynd, né hryllingsmynd né neitt neitt. Sú litla spenna og eftirvænting sem fór að skapast var alltof sein að myndast, allur fyrri hlutinn er ekkert nema Julia Stiles að leika mömmu, ég vona hún sé skárri í raunveruleikanum. Seinni hlutinn, loksins gerðist eitthvað athyglisvert, en eins og ég sagði, því miður alltof seint til þess að öðlast sanna björgun. Myndin átti alvarlegt bágt með að skapa merkilegt andrúmsloft, ekkert greip mig, meðan allur salurinn sem var fullur af ungum krökkum var hoppandi í öskursorgíum þá sat ég og hugsaði með mér hve tilgerðarlegt þetta allt var. Meðal þess þá komst ég af því hve íslenska æskan sé greinilega auðveldlega göbbuð, hvaða api með myndavél gæti gert það sama og gert var í Omen. En ég ætti að segja eitthvað gott um myndina, David Thewlis og Liev Schreiber stóðu sig ágætlega, atriði þeirra eru enda þau bestu í myndinni og þau einu sem kveiktu áhuga að einhverju leiti. Damien, eða sonur Satans var misgóður, hafði sín augnablik en undir lokin ekkert til þess að muna eftir, hann var jafnvel óvart fyndinn þegar hann átti að vera óhugnanlegur. Þessi ekki svo góða endurgerð fellur á eftir langri röð af misheppnuðum hrollvekjum seinustu ára sem eru yfirleitt líka endurgerðar af eldri myndum, The Ring 2, The Grudge, Dark Water, mun þessu aldrei linna? Ég gæti þó gefið Omen titlinum fyrir að vera sú skásta þessara mynda, en það er varla neitt afrek.

Sindri Gretarsson.

Engin ummæli: